Vel heppnaður farskóli á Hallormsstað

Um 120 manns sóttu vel heppnaðan farskóla safnafólks sem fram fór á Hallormsstað dagana 21.-23. september. 

Farskólinn er árleg fagráðstefna safnafólks, haldin af FÍSOS, félagi íslenskra safna og safnmanna. Ráðstefnan hefur verið haldin víðsvegar um land í gegnum tíðina og ætíð í samstarfi við heimafólk á hverjum stað. Að þessu sinni höfðu starfsfólk Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafns Austurlands og Safnastofnunar Fjarðabyggðar veg og vanda af skipulagningunni í góðu samstarfi við FÍSOS. 

Ráðstefnan fór fram á Hótel Hallormsstað og er óhætt að setja að skógurinn hafi skartað sínu fegursta þessa haustdaga. Á ráðstefnunni, sem bar yfirskriftina Söfn á tímamótum, voru haldin fjölbreytt erindi og málstofur þar sem þátttakendur ræddu og fræddust um það sem efst er á baugi í safnageiranum, hér á landi og í útlöndum. Meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni voru starfsumhverfi framtíðarinnar, menningarmiðlun á nýjum tímum, umhverfismál, aðgengis- og jafnréttismál, óáþreifanlegur menningararfur, fræðslumál, varðveisla báta, hönnunarhugsun í safnastarfi, fagefling safna, ný safnaskilgreining ICOM, varðveisla ljósmynda, kynningarstarf og grisjun safnkosts. Þá var farið í skoðunarferð á Seyðisfjörð þar sem þátttakendurnir fengu að skoða aðstæður hjá Tækniminjasafni Austurlands og fræðast um þau stóru verkefni sem safnið hefur staðið frammi fyrir í kjölfar skriðufallanna 2020. Þá var einnig litið við í Safnahúsinu á Egilsstöðum og Hallormsstaðaskóli og Skógræktin á Hallormsstað heimsótt auk þess sem þátttakendum gafst kostur á að líta við í Sláturhúsinu, menningarmiðstöð á Egilsstöðum sem var einmitt formlega opnað eftir endurbætur á sama tíma og farskólinn fór fram. Venju samkvæmt fór aðalfundur FÍSOS líka fram við þetta tækifæri auk þess sem blásið var til árlegrar árshátíðar safnafólks. 

Ráðstefnan tókst afar vel og almenn ánægja ríkti meðal gesta. Safnafólk á Austurlandi þakkar kollegum sínum kærlega fyrir komuna og ánægjulega samveru. Hlökkum til að taka þátt í næsta farskóla sem fer fram í Amsterdam að ári. 

Mynd: Farskólagestir hlýða á Ellie Bruggemann frá Museumregister Nederland, fjalla um hvernig hvernig Hollendingar haga málum þegar kemur að grisjun safnkosts.