Dagar myrkurs í Safnahúsinu

Minjasafnið tók þátt í Dögum myrkurs á Austurlandi í gær með því að bjóða upp á lengri opnunartíma, ratleik um safnið og föndurhorn.

Ratleikurinn tengdist ástríðuáhugamáli Íslendinga í gegnum tíðina þ.e. veðri og veðurspám. Þátttakendur fengu að kynnast því hvernig formæður og -feður okkar lásu í umhverfið sitt til að spá fyrir um veður og alls kyns hjátrú sem spratt fram í kjölfarið. Í ratleiknum voru vísbendingar gefnar annars vegar í formi teikninga fyrir yngri börnin og hins vegar textaformi fyrir þau eldri um muni í sýningarsalnum sem tengjast með beinum eða óbeinum hætti trú manna um fyrirboða veðurs. Til dæmis þurfti að leita uppi pott og þá var hægt að komast að því að ef mikið vall í grautarpotti mátti búast við stormi og ef pottur yfir hlóðaeldi varð hvítur að neðan mátti búast við köldu en björtu veðri. Einnig fylgdist fólk áður fyrr náið með háttalagi dýra enda virðast þau vera næmari fyrir veðrabreytingum. Með því að finna músagildru fengust upplýsingar um það hvernig fólk trúði að músarholur gætu gefið vísbendingu um ríkjandi átt komandi vetur þar sem mýsnar sneru holum sínum undan ríkjandi átt. Og sömuleiðis ef kettir voru mjög uppteknir við að klóra sér á bak við eyrun boðaði það regn. Hins vegar ef köttur brá loppu yfir eyra til að þvo sér boðaði það gott veður. Eitthvað sem kattaeigendur gætu sannreynt. Furðulegt nokk þá tengdust flestir fyrirboðarnir óveðri og rigningu.

Bókasafn Héraðsbúa tók þátt í viðburðinum með því að bjóða m.a. upp á svokallaða "Brake out" þraut en hún fólst í því að opna læstan kassa með því að leysa þrautir og finna vísbendingar sem leyndust um allt hús. Einnig gátu gestir föndrað og litað grímur og kynnt sér veðurorð sem tengjast snjó. Fjöldi fólks lagði leið sína í húsið og gaman að sjá börn og fullorðna gefa sér góðan tíma til að njóta samverunnar í Safnahúsinu. 

 

Dagarmyrkurs 3
Dagarmyrkurs 2
Dagarmyrkurs 1