Skip to main content

Álfkonudúkur grunnskólabarna á Austurlandi

01. nóvember 2022

Farandsmiðjan Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli, sem Minjasafnið stóð fyrir í tengslum við BRAS, lauk 7. október síðastliðinn. Afraksturinn er nú til sýnis á safninu.

Markmið verkefnisins var að kynna merkan grip af Austurlandi fyrir grunnskólanemendum í gegnum fræðslu og skapandi vinnu. Nemendur fengu fræðslu um álfkonudúkinn frá Bustarfelli sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands, og þjóðsöguna á bak við hann. Í kjölfarið heimsótti myndlistarkonan Anna Andrea Winther skólana með smiðju þar sem nemendur fegnu að spreyta sig á útsaumi í anda dúksins með því að þrykkja laufblaði á bómullardúk og sauma það svo út eftir eigin höfði. Anna saumaði síðan öll laufblöðin saman þannig að úr varð nýr álfkonudúkur sem er sannkallað samstarfsverkefni barna á Austurlandi. Nemendur veltu jafnframt fyrir sér þjóðsöguforminu með því að rifja upp eða semja eigin þjóðsögu.

Nemendur úr Brúarásskóla, Djúpavogsskóla, Vopnafjarðarskóla og Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla tóku þátt í verkefninu sem heppnaðist afar vel og fékk frábærar viðtökur. Afraksturinn er nú til sýnis í Minjasafninu en þar má bæði skoða útsaum barnanna og lesa þjóðsögurnar sem þau sömdu eða endursögðu. Sýningin stendur yfir til 18. október. 

Verkefnið var hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Menningarsjóði Múlaþings og Höldur-Bílaleigu Akureyrar.

Alfkonudukur 1
Alfkonudukur 2
Alfkonudukur 3
Alfkonudukur 4
Alfkonudukur 5
Alfkonudukur 6
Alfkonudukur 7
Alfkonudukur 8