Jólahefðir héðan og þaðan: Pólland
Jólahefðir eru oft ólíkar á milli landa og það getur verið áhugavert að velta því fyrir sér hvaðan þær spretta, hvernig þær ferðast manna á milli og taka breytingum með tíð og tíma.
Hér á Austurlandi, líkt og annars staðar, býr fólk með ólíkan bakgrunn sem kemur hvaðanæva að úr heiminum og tókum við okkur til hérna á safninu og kynntum okkur jólahefðir nokkurra þeirra. Þau segja aðallega frá hefðum sem þau vöndust á jólunum sem börn og munu þessi stuttu viðtöl birtast nokkur fram að jólum. Við byrjum í Póllandi.
Beata Brodowska er frá Póllandi en hefur verið búsett á Egilsstöðum frá 2006 og starfar á Minjasafni Austurlands. Fjölskyldan hennar er frá Norð-Austur hluta Póllands og er ekki kaþólskrar trúar eins og meirihluti landsmanna og eru því sumar hefðir þeirra öðruvísi en gengur og gerist í Póllandi. Beata lýsir jólahefðum eins og hún man eftir þeim sem barn í Póllandi á þessa leið:
Í Póllandi fá börnin tvær heimsóknir frá tveimur mismunandi jólasveinum. Sá fyrri er heilagur Nikulás sem setur litla gjöf undir koddann þann 6. desember en sá seinni kemur 24. desember og nefnist Gwiazdor og kemur gjöfinni fyrir undir jólatrénu. Gwiazdor þýðir stjörnumaðurinn og er gamall maður í biskupaklæðum með staf. Hann verðlaunar þægu börnin með gjöfum en gefur óþægu börnunum trjágreinar sem áður fyrr voru notað til að flengja þau með. Ekki eru neinir jólavættir á borð við Grýlu eða jólaköttinn.
Pólverjar halda jólin hátíðleg á aðfangadag með því að hittast og borða saman þegar að dimma tekur og stjörnurnar birtast og fagna þá fæðingu Jesús. Allir eru með sitt brauð sem kallast oplatek og er sambærilegt oblátu sem við þekkjum úr altarisgöngu nema hvað að það er stærra, ferkantað og með helgimynd pressaða í brauðið. Þau brjóta bita af brauði hjá hvort öðru, borða það og óska hvort öðru árnaðar á nýju ári.
Þegar Beata var lítil var alltaf skreytt 24. desember en það hefur breyst í Póllandi líkt og víðar. Ekki mátti borða kjöt á aðfangadag en hins vegar mátti borða fisk og tíðkast að borða vatnakarfa. Hann var keyptur lifandi og geymdur í baðkarinu þar til honum var slátrað og eldaður. Í forrétt er víðast hvar borðuð rauðrófusúpa en fjölskylda Beatu borðar villisveppasúpu með hveitibollum, súpu með þurrkuðum ávöxtum og grjónagraut með rúsínum. Einnig er boðið upp á síld og kartöflusalat.
Aðfangadagskvöld snýst um samveru þar sem fólk spjallar og borðar en klukkan tíu er hægt að fara í messu. Á jóladag má borða kjöt og þá er yfirleitt boðið upp á svínakjöt með plómum og plómusósu. Þegar Beata er spurð út í hefðbundinn jólabakstur nefnir hún makowiec sem er kaka með valmúafræjum sem hún segir að sé ómissandi um jólin, kannski eins og laufabrauð á Íslandi. Einnig talaði hún um chrusciki sem svipar til laufabrauðs en er eins og kleina í laginu.
Í huga Beatu er hennar helsta minning um jólin í tenglsum við stóra jólatréð sem var sett upp hjá ömmu hennar og afa og allt fallega jólaskrautið á trénu. Á hverju ári kaupir hún sér eitt jólaskraut til að bæta við á sínu eigin tré og minnist þannig ömmu sinnar og afa. Einnig minntist hún þess þegar þau jólaskreyttu með því að hengja upp pappírsskraut og ávexti enda var skraut af skornum skammti þegar hún var lítil á tímum kommúnsimans. Afi hennar veiddi héra og amma hennar bjó til héragúllas sem var að sögn Beatu ómótstæðilegur réttur og frænka hennar eldar ennþá í dag.
Að lokum kemur bútur úr pólsku jólalagi sem minnir Beatu á jólin í Póllandi:
Lag: Gdy sie Chrystus rodzí/ (sem hægt væri að þýða sem Fæðing Jesús)
Gdy się Chrystus rodzi
I na świat przychodzi
Ciemna noc w jasności
Promienistej brodzi
Aniołowie się radują,
Pod niebiosy wyśpiewują:
Gloria, gloria, gloria
In excelsis Deo!
Mówią do pasterzy
Którzy trzód swych strzegli
Aby do Betlejem,
Czym prędzej pobiegli.
Bo się narodził Zbawiciel,
Wszego świata Odkupiciel,
Gloria, gloria, gloria
In excelsis Deo!
Hægt er að finna lagið sungið m.a. hér: https://www.youtube.com/watch?v=K7qGauu3Eyg
Myndir:
Oplatek
Gwiazdor sem færir börnum gjafir á aðfangadag
Makowiec með valmúafræjum
Chrusciki sem minnir bæði á laufabrauð og kleinur