Jólahefðir héðan og þaðan: Danmörk
Við ljúkum jólaferð okkar um heiminn í Danmörku. Litten Nystrøm er dönsk en hefur búið á Seyðisfirði frá 2011 þar sem hún hefur fengist við ýmislegt en hún er myndlistarmaður og hönnuður. Hér lýsir hún dönskum jólum:
„Ég elskaði jólin og byrjaði snemma í desember að suða um að jólaskrautið yrði dregið fram. Við föndruðum mikið og mamma mín var lunkin við að búa til alls kyns skemmtilegt jólaskraut úr hinu og þessu t.d. jólahjörtun (pokar) og fleira. Það var líka mikið um kerti og kertaljós og við vorum með dagatalakerti. Mér þótti sérstaklega vænt um gamalt jólaskraut sem hefur verið innan fjölskyldunnar í nokkrar kynslóðir. Mér fannst það töfrum líkast að komast í snertingu við eitthvað svona gamalt. Við bökuðum líka mikið af jólasmákökum og ég man sérstaklega eftir kökum sem heita brunkager og eru kryddaðar kökur sem eiga rætur sínar að rekja allt aftur til miðalda en voru þá búnar til úr rúgbrauði, hunangi og kryddum. Ég fékk súkkulaðidagatal en mamma bjó líka til dagatal með litlum gjöfum fyrir okkur systkinin. Svo man ég eftir að hafa horft á barnatíma í sjónvarpinu í kringum jólin áður en skólinn byrjaði sem var óvenjulegt. Þann 23. desember bjuggum við til hrísgrjónagraut og borðuðum en settum líka graut í skál fyrir Julenissen sem er eins konar jólahúsálfur sem býr uppi á háalofti. Það þarf að gefa honum að borða einu sinni á ári og ef maður gleymir því þá er voðinn vís og hann tekur upp á því að hrekkja heimilisfólkið. Við settum skálina upp á háaloft og nokkrum dögum síðar var búið að borða grautinn. Á aðfangadag borðum við julefrokost og foreldrarnir byrjuðu snemma að huga að matnum. Við borðuðum venjulega önd og meðlætið voru brúnaðar kartöflur og rauðkál. Í eftirrétt var ris a la mande sem var gert úr hrísgrjónagrautnum frá því deginum áður og svo kleinur og heimalagað konfekt með marsípani og núggat. Í grautnum var falin mandla og sá sem fékk hana hlaut gjöf. Eftir matinn var dansað í kringum jólatréð og sungið og að því loknu voru gjafirnar opnaðar. Í jólafríinu hittist stórfjölskyldan og þá var boðið upp á hlaðborð og mikið lagt upp úr því að borða og hafa það notalegt. Fyrir gamlársdag var svo allt jólaskraut tekið niður og þar með lauk jólunum."
Uppskrift af brunkager: https://denmark.dk/people-and-culture/christmas-recipes/brunkager
Myndir:
Brunkager
Jólahjörtu
Gamlajólskrautið í eigu fjölskyldu Litten