Skip to main content

Minjasafn Austurland hlýtur styrki úr Safnasjóði

14. febrúar 2023

Minjasafn Austurlands fékk  tvo styrki úr aðalúthlutun Safnasjóð í ár en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands í gær.

Annar styrkurinn var veittur í safnfræðsluverkefnið Skapandi arfleifð sem Minjasafnið stendur fyrir í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Þetta verður í fjórða sinn sem safnið býður skólum á starfssvæði sínu upp á verkefni þar sem þau fá fræðslu um menningararfinn í gegnum skapandi vinnu undir handleiðslu listafólks. Í fyrsta skiptið var unnið með þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar, árið eftir var Valþjófsstaðahurðin nýtt sem innblástur, í fyrra unnu nemendur með álfkonudúkinn frá Bustarfelli og í ár verður unnið með óáþreifanlegan menningararf. 

Hinn styrkurinn var veittur í verkefnið Leyndardómar Valþjófsstaðahurðarinnar en þar er um að ræða spennandi samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands og Þjóðminjasafns Íslands en söfnin hyggjast taka höndum saman og gefa út sérstakt fræðslu- og leikjahefti fyrir börn þar sem sögu hurðarinnar verður miðlað í gegnum skapandi og skemmtileg verkefni.

Jóhanna Bergmann, fyrrverandi safnstjóri Minjasafns Austurlands og núverandi starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, veitti styrkjunum viðtöku fyrir hönd Minjasafnsins. Hún er einmitt einn fulltrúa Þjóðminjasafnsins í samstarfsverkefninu um Valþjófsstaðahurðina. 

Áður hafði safnið fengið tvo styrki úr aukaúthlutun Safnasjóðs, annars vegar til að sækja Farskólann, árlega fagráðstefnu safnafólks sem að þessu sinni fer fram í Hollandi og hins vegar í fyrirlestrarröðina Nýjustu fræði og vísindi sem safnið stendur fytrir ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga, Rannsóknarsetri HÍ á Austurlandi, Gunnarsstofnun, Hallormsstaðaskóla og Sögufélagi Austurlands. 

Mynd: Safnaráð

Síðustu fréttir

Afmælismoli - Notendur safnsins
18. september 2023
Á Minjasafninu fáum við til okkar ýmsa gesti héðan og þaðan. Á sumrin eru gestirnir að megninu til erlendir og innlendir ferðamenn en á veturna eru skólarnir á svæðinu duglegir að nýta sér safnið o...
Afmælismoli - Innra starf
08. september 2023
Verkefnum menningarminjasafna má skipta í fimm flokka sem allir tengjast innbyrgðis og segja má að treysti hver á annan. Þessi flokkar eru: söfnun, varðveisla, skráning, rannsóknir og miðlun. Verke...
Afmælismoli - húsnæði Minjasafns Austurlands
28. ágúst 2023
Við höldum áfram að tína til skemmtilega mola úr sögu Minjasafns Austurlands í tilefni af því að í haust verða 80 ár liðin frá stofnun þess. Nú beinum við sjónum að húsnæði safnsins í gegnum tíðina...