Skip to main content

Minjasafn Austurland hlýtur styrki úr Safnasjóði

14. febrúar 2023

Minjasafn Austurlands fékk  tvo styrki úr aðalúthlutun Safnasjóð í ár en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands í gær.

Annar styrkurinn var veittur í safnfræðsluverkefnið Skapandi arfleifð sem Minjasafnið stendur fyrir í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Þetta verður í fjórða sinn sem safnið býður skólum á starfssvæði sínu upp á verkefni þar sem þau fá fræðslu um menningararfinn í gegnum skapandi vinnu undir handleiðslu listafólks. Í fyrsta skiptið var unnið með þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar, árið eftir var Valþjófsstaðahurðin nýtt sem innblástur, í fyrra unnu nemendur með álfkonudúkinn frá Bustarfelli og í ár verður unnið með óáþreifanlegan menningararf. 

Hinn styrkurinn var veittur í verkefnið Leyndardómar Valþjófsstaðahurðarinnar en þar er um að ræða spennandi samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands og Þjóðminjasafns Íslands en söfnin hyggjast taka höndum saman og gefa út sérstakt fræðslu- og leikjahefti fyrir börn þar sem sögu hurðarinnar verður miðlað í gegnum skapandi og skemmtileg verkefni.

Jóhanna Bergmann, fyrrverandi safnstjóri Minjasafns Austurlands og núverandi starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, veitti styrkjunum viðtöku fyrir hönd Minjasafnsins. Hún er einmitt einn fulltrúa Þjóðminjasafnsins í samstarfsverkefninu um Valþjófsstaðahurðina. 

Áður hafði safnið fengið tvo styrki úr aukaúthlutun Safnasjóðs, annars vegar til að sækja Farskólann, árlega fagráðstefnu safnafólks sem að þessu sinni fer fram í Hollandi og hins vegar í fyrirlestrarröðina Nýjustu fræði og vísindi sem safnið stendur fytrir ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga, Rannsóknarsetri HÍ á Austurlandi, Gunnarsstofnun, Hallormsstaðaskóla og Sögufélagi Austurlands. 

Mynd: Safnaráð

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...