Jólasýningar og samvera
Hin árlega jólasamvera Safnahússins var haldin 29. nóvember síðastliðinn en eins og undanfarin ár tóku söfnin í húsinu þá höndum saman og buðu upp á margvíslega afþreyingu og notalega fjölskyldusamveru.
Jólasýning Minjasafnsins, Þorláksmessukvöld, var opnuð við sama tilefni en þar geta gestir skyggnst inn í stofu frá sjöunda áratugnum þar sem jólaundirbúningur stendur sem hæst. Á Bókasafninu var jólalegur upplestur og sjálfur Skyrgámur gerði sig heimakominn á Skjalasafninu gestum til mikillar gleði. Þá var boðið uppá jólalegar þrautir, ratleiki og föndur. Síðast en ekki síst gátu gestir dregið miða með nafni einhvers af hinum minna þekktu systkinum jólasveinanna og síðan teiknað þau með ímyndunaraflið að vopni.
Samveran var vel sótt en á milli 80 og 90 manns lögðu leið sína í húsið á meðan henni stóð.