Minjasafnið hlýtur styrki úr Uppbyggingarsjóði
Minjasafn Austurlands hlaut tvo styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands en úthlutað var úr sjóðnum við hátíðlega athöfn í Sláturhúsinu - menningarmiðstöð, í gær.
Annars vegar fékk safnið 500.000 kr. styrk vegna sumarsýningar 2024 en hefð er fyrir því að á safninu sé opnuð ný sýning í byrjun sumars. Að þessu sinni verður sýningin helguð austfirskri kvennasögu í tilefni af kvenna- og kynjasöguþingi sem fram fer á Seyðisfirði og Egilsstöðum í byrjun júní.
Hins vegar fékk safnið 1.500.000 kr styrk í viðamikið samstarfsverkefni sem hlotið hefur vinnuheitið Kjarval á Austurlandi. Þar er um að ræða samstarfsverkefni nokkurra menningarstofnana með það að markmiði að draga fram tengsl Jóhannesar Kjarval við Austurland. Í fyrsta lagi verður sett upp sýning með persónulegum munum Kjarvals en Minjasafnið varðveitir stórt safn þeirra. Í öðru lagi mun Sláturhúsið setja upp fjölskylduleiksýninguna Kjarval í samstarfi við Borgarleikhúsið og í þriðja lagi verður þróað fræðsluverkefni fyrir börn um Kjarval og list hans og verður það hluti af Bras, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi 2024. Í framhaldi af þessu er stefnt á að sett verði upp sýning með verkum Kjarvals í Skaftfelli á Seyðisfirði.
Við þökkum innilega fyrir styrkina sem skipta sköpum fyrir verkefnin og gera okkur kleift að ráðast í þau. Hér má finna nánari upplýsingar um úthlutunina úr Uppbyggingarsjóði.
Mynd: Austurbrú.