Safnasóknin á Austurlandi
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað var stefnt fulltrúum safna á Austurlandi. Um er að ræða vinnufundi sem hafa það að markmiði að finna leiðir til að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem söfnin sinna, en miðað við samfélagsumræðu og niðurstöður úr könnun á fjármögnun safna, er ekki vanþörf á.
Á fundinum var annars vegar rætt um mikilvægi safna fyrir samfélagið, styrkleika þeirra, tækifæri og ógnir og hins vegar hvaða aðgerðum sé hægt að beita til að vekja athygli ólíkra hópa á mikilvægi þeirra, svo sem þingmanna, sveitarstjórna, almennings og ferðaþjónustuaðila. Umræðurnar voru afar góðar og margir góðir punktar komu fram.
Nú í vor verða haldnir fjórir fundir, þ.e. á Siglufirði, Egilsstöðum, í Stykkishólmi og Reykjavík. Umræðum og hugmyndum sem koma upp á fundunum verður safnað saman og útbúinn skýrsla um stöðuna og aðgerðaáætlun. Niðurstöður verða kynntar á Farskólanum og í framhaldinu verður svo stofnaður hagsmunahópur safna.