Skip to main content

Öskupoka- og bolluvandasmiðja

12. febrúar 2024

Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar var boðið upp á efnivið og kennslu í því að búa til þessa hluti sem mörgum þykja ómissandi á bollu- og öskudaginn. 

Þetta var í sjöunda sinn sem félagar úr Soroptimistakúbbi Austurlands koma í Safnahúsið í aðdraganda öskudags og kenna réttu handtökin við öskupokasaum. Í ár var síðan bætt um betur og einnig boðið upp á bolluvandasmiðju þar sem gestir gátu komið sé upp bolluvendi úr endurunnum hráefnum. Svo virðist sem þessir siðir, þ.e. að hengja öskupoka á fólk og flengja það með vendi fyrir bollur, séu heldur á undanhaldi, a.m.k. var tilgangur þessara hluta ekki augljós öllum gestum af yngri kynslóðinni. Þau voru hins vegar öll staðráðin í að láta reyna á það hvort þau gætu skreytt fjölskyldumeðlimi með öskupokum eða flengt þá með bolluvendi. 

Bolludag ber alltaf upp á mánudaginn í sjöundu viku fyrir páska. Sú hefð að halda upp á bolludag kom hingað til lands frá Danmörku á seinni hluta 19. aldar og festi sig í sessi í upphafi 20. aldar. Heitið “bolludagur” sást fyrst á prenti árið 1910 en annars var dagurinn oft kallaður flengingardagur. Heimagerða bolluvendi notuðu börn til að flengja fólk og fá bollu fyrir. Forðum taldist flenging ekki gild nema sá sem flengdi væri kominn í fötin og fórnarlambið óklætt. Dæmi voru um að börn færu á milli húsa í smærri bæjarfélögum og flengdu heimilisfólkið í mörgum húsum. 

Sú hefð að hengja öskupoka á fólk er hins vegar alíslensk. Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnuvík, líklega frá miðbiki 18. aldar en þar segir:

„Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.“

Eins og fyrr segir er þetta í sjöunda sinn sem félagar úr Soroptimistaklúbbi Austurlands kenna öskupokasaum í Safnahúsinu. Árið 2020 var ekki hægt að bjóða fólki að koma í húsið til að sauma poka vegna samkomutakmarkana en þess í stað var gert kennslumyndband sem aðgengilegt er á netinu. Við þökkum klúbbnum kærlega fyrir samstarfið í gegnum tíðina, án þeirra hefðu þessar smiðjur ekki orðið að veruleika. 

2024 Oskupokasmidja 2
2024 Oskupokasmidja 3
2024 Oskupokasmidja 5
2024 Oskupokasmidja 1

 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...