"Röð og regla á söfnum"
Þann 16. apríl síðastliðinn stóð NKF-IS, félag norrænna forvarða á Íslandi fyrir námskeiðinu Röð og regla á söfnum - umhirða og eftirlit safnhúsa og sýningarhúsnæðis (housekeeping). Minjasafn Austurlands hlaut styrk úr Safnasjóði til að senda fulltrúa á námskeiðið sem haldið var í Byggðasafni Hafnarfjarárð, nánar tiltekið í Bookless Bunglow á Vesturgötu 32 í Hafnarfirði.
Fyrirlesari var Lisa Nilsen sem er sjálfstætt starfandi forvörður frá Svíþjóð, en þar sinnir hún verkefnum fyrir söfn, skjalasöfn, sænsku kirkjuna og menningarstofnanir sveitarfélaga. Lisa hefur mikla reynslu af því sem í Bretlandi er kallað “housekeeping”, en það er yfirgripsmikið hugtak innan forvörslu sem notað er yfir eftirlit, þrif og ástandsmat sýningarhúsnæðis og þá sér í lagi í gömlum húsum. Lisa fór yfir aðalatriði varðveislu og viðhalds safnkosts og húsakynna safna á skemmtilegan hátt, en þessir þættir geta verið mikil áskorun. Hún kynnti allskyns fyrirbyggjandi aðferðir til þess að geta einfaldað viðhald og varðveislu til lengri tíma, hvernig bregðast eigi við myglu, meindýrum, sliti og álagi og hvernig aðferðir henti best við þrif sýningarhúsnæðis og safnhúsa. Allt er þetta mikilvægt því með réttum aðferðum sparast bæði tími og peningar, safninu og samfélaginu til góða. Óhætt er að segja að námskeiðið hafi verið fræðandi og skemmtilegt og mun án nokkurs vafa nýtast vel hér á okkar safni.
Myndir fengnar af facebook-síðu NKF.