Skip to main content

Ljóstýra: Vetrarverkin

30. október 2020

Starfsárið í íslenska landbúnaðarsamfélaginu á 19. öld skiptist í tvo meginhluta; bjargræðistíma, sem stóð frá vori til hausts, og ómegðartíma, sem stóð frá hausti til vors.

Bjargræðistíminn var helst nýttur til forðasöfnunar og undirbúnings fyrir veturinn, á meðan ómegðartíminn var tími úrvinnslu. Ómegðartíminn hófst um veturnætur, þá er haustvinnan var búin, og tóku þá vetrarstörfin við sem skiptust aðallega í tvennt: gripahirðingu og tóvinnu (ullarvinnslu). Sauðfénu var haldið til beitar eins mikið og hægt var. Eftir að ullin hafði verið rúin af kindunum tók heimilisfólk til við að kemba hana og spinna í þráð sem síðan var notaður í prjónaskap og vefnað. Tóvinnslan gat verið ansi tímafrek og kostað vökur á heimilinu. Allt heimilisfólk hjálpaðist að við hana og börnum kennt að prjóna mjög ungum. Aldrei var hamast jafn mikið að prjóna og síðustu vikuna fyrir jól, þvi að bæði var hvíldin þá á næsta leiti og svo þurfti að koma sem mestu í kaupstað og hægt var, svo skuldin í búðinni stæði ekki yfir nýárið.

Aðalskemmtunin á veturna á bæjunum var að spjalla saman yfir vinnunni í baðstofunni, lesa upphátt, segja sögur, kveða vísur og rímur en samkvæmt Árna Björnssyni í Saga daganna hófst húslestur í kringum veturnætur. Fólk kunni fjöldann allann af sögum og sumir kunnu heilar rímur spjaldanna á milli. Sumir höfðu það að atvinnu á veturna að skrifa upp rímur og fara með það bæ frá bæ og kveða og lesa fólki til skemmtunar. Einnig skemmti fólk sér oft við tafl og spil.

Önnur störf sem algeng voru á veturna voru veiðar og smíðar og voru margir hagleiksmenn með afbrigðum, bæði á tré, járn og silfur enda þurfti hver og einn að hjálpa sjálfum sér eftir föngum. Allt sem hægt var að búa til sjálfur, vöruðust menn að kaupa.

Heimild: Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili

---

Byggðahátíðin Dagar myrkurs stendur nú yfir á Austurlandi. Af því tilefni býður Minjasafn Austurlands uppá daglega fróðleiksmola sem bera yfirskriftina Ljóstýrur. Fyrstu ljóstýruna má lesa hér.