Skip to main content

Minjasafnið hlýtur styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

14. desember 2021

Minjasafn Austurlands fékk úthlutað 1,8 milljónum til þriggja verkefna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands en úthlutað var úr sjóðnum í dag.

Í fyrsta lagi fékk safnið 500.000 kr. styrk til að standa fyrir safnfræðsluverkefni í tengslum við BRAS á næsta ári en markmið þess er að kynna menningararf og sögu Austurlands fyrir grunnskólanemum í gegnum skapandi verkefni í samstarfi við starfandi listafólk. Í öðru lagi fékk safnið 500.000 kr. til miðlunar í Kjarvalshvammi en ætlunin að uppfæra og efla miðlun á sögu staðarins og Kjarvals í hvamminum og gera heimsóknir á staðinn þannig áhrifameiri. 

Síðast en ekki síst fékk safnið 800.000 kr. til að láta vinna forkönnun, greiningu og tillögur um sameiginlega varðveislumiðstöð safna á Austurlandi í samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands, Minjasafnið á Bustarfelli og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. 

Úthlutunarathöfnin fór fram í gegnum fjarfund að þessu sinni. Alls bárust 89 umsóknir í sjóðinn upp á 148 milljónir en rúmlega 55 milljónir voru til úthlutunar. Við þökkum fyrir veittan stuðning og hlökkum til að takast á við verkefnin á nýju ári. Nánar má lesa um úthlutunina hér.

Mynd: Frá safnfræðsluverkefni Minjasafns Austurlands í tengslum við BRAS 2021.