BRAS: Rýnt í álfkonudúkinn
Minjasafn Austurlands tekur þátt í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, með verkefninu Álfkonudúkurinn.
Álfkonudúkurinn er talinn vera frá 17. öld og var upprunalega á Bustarfelli en síðar meir notaður sem altarisklæði í Hofskirkju í Vopnafirði. Dúkurinn er nú varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands. Álfkonudúkurinn er úr gulu vaðmáli og er fagurlega skreyttur myndum úr ásaumuðu flaueli og útsaumuðu skreyti úr víraþráðum. Dúkurinn er auk þess merkilegur fyrir þjóðsöguna sem fylgir honum en sagan segir að sýslumannsfrúin á Bustarfelli hafi dreymt draum þar sem hún var leidd inn í stein af álfum til að aðstoða álfkonu í barnsnauð. Að launum fékk hún fagurlega skreyttan dúk. Þegar sýslumannsfrúin vaknaði sagði hún fólkinu á bænum frá draumi sínum og dró að lokum dúkinn undan kodda sínum. Dúkurinn er því gott dæmi um gamalt handverk og varðveislu sagna.
Verkefnið sem Minjasafnið býður upp á hverfist um álfkonudúkinn þar sem nemendur á miðstigi eða elsta stigi fá stutta kynningu á honum og í kjölfarið eru þau beðin um að segja frá þjóðsögu sem þau þekkja eða búa til sína eigin. Auk þess fá þau útsaumssmiðju með myndlistarmanninum Önnu Andreu Winther þar sem þau fá tækifæri til að sauma út. Í tengslum við verkefnið verða niðurstöður nemandanna sem taka þátt sýndar í Krubbunni sem er lítið sýningarrými í Minjasafninu.
Markmið verkefnisins er að kynna álfkonudúkinn og sögu hans fyrir nemendum í gegnum skapandi vinnu með starfandi listafólki. Um leið er athygli nemenda vakin á merkum gripum frá Austurlandi sem varðveittir eru á Þjóðminjasafni Íslands. Þetta er í annað sinn sem Minjasafn Austurlands stendur fyrir verkefni þar sem merkir gripir frá Austurlandi eru kynntir fyrir nemendum með þessum hætti en í fyrra var bauð safnið upp á smiðjur þar sem rýnt var í Valþjófsstaðahurðina.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Menningarsjóði Múlaþings og Höldur - Bílaleigu Akureyrar.