Jólahefðir héðan og þaðan: Frakkland og Ítalía
Við höldum áfram að kynna okkur jólahefðir annarra landa og nú er komið að Frakklandi og Ítalíu. Lilaï Licata er frönsk-ítölsk að uppruna en hefur verið búsett á Seyðisfirði frá 2018 þar sem hún kennir myndmennt og kvikmyndir í Seyðisfjarðarskóla. Hún lýsir jólahefðum úr sinni æsku á þessa leið:
„Þar sem ég er frönsk-ítölsk ólst ég upp við hefðir frá báðum löndum og jafnvel þó að ég hafi ekki verið alin upp í kristni þá fagnaði ég jólunum af miklum eldmóði líkt og flest önnur börn og beið með eftirvæntingu eftir "Noël" (jól á frönsku), "Natale" (jól á ítölsku) og "la Befana" (góðhjörtuð ítölsk norn sem er á kreiki um jólin).
Fjölskyldan mín hélt í hefðir frá báðum löndum og var jólahátíðin því mjög sérstök í mínum huga og upplifunin sú að ég ætti tvöföld jól og þú getur rétt ímyndað þér að það hefur þótt spennandi fyrir barn. Þar sem við bjuggum í Frakklandi áttum við jólafrí frá skólanum frá 15. desember og fram á nýár og við opnuðum gjafir frá jólasveininum („le Pére Noel“) að morgni 25. desember eða að kvöldi 24. desember hjá sumum fjölskyldum en mér þótti það vera merki um óþolinmæði. Að kvöldi aðfangadags fara þau sem trúa á jólasveininn („Père Noël“) snemma í háttinn og skilja eftir eitthvað snarl fyrir hann, á meðan að þau sem ekki trúa á jólasveininn aðstoða foreldrana við að pakka inn gjöfunum fyrir yngri systkin eða þau sem trúa. Að morgni jóladags er sofið frameftir (eftir langa vöku við að pakka inn gjöfum) og þegar allir eru vaknaðir borðum við saman dögurð og opnum gjafirnar við jólatréð.
Á Ítalíu byrjar skólaafríið ekki fyrr en 23. desember og nefnast jólin „Natale“ og stendur fríið fram yfir til 6. janúar en þá kemur „la Befana" sem er góðhjörtuð norn sem flýgur á kústi sínum og færir góðum börnum gjafir en óþægum börnum kol. Þar sem ég gekk í skóla í Frakklandi lauk fríinu mínu rétt eftir áramót og þá var jólunum lokið í hugum hinna barnanna en ég beið spennt eftir 6. janúar með eftirvæntingu um hvað Befana myndir færa mér. Þann 5. janúar fer fram svipaður undirbúningur og við frönsku hefðina þann 24. desember og ef við vorum svo heppin að 6. janúar var á laugardegi áttum við svipaðan dag og 25. desember en annars þurftum við að bíða þar til skólanum lyki til að opna gjafir og borða „galette des Rois“ (frönsk kóngabaka) en það er hefðbundið sætabrauð (smjördeig fyllt með möndlum ) sem er borðað í Frakklandi á þrettándanum eða „Epiphany“ eins og dagurinn er kallaður þar.
Á Ítalíu borðum við „Panettone“ sem er sætt ávaxtabrauð og „Pandoro“ sem er hvít kaka stráð með flórsykri, en í Frakklandi borðum við „bûche de Noël" (sætabrauð sem lítur út eins og trjábolur) og áðurnefnt „galette des Rois". Þegar ég var krakki á Ítalíu fengum við jafnvel sæta kolamola (sælgæti sem leit út eins og kolamoli). En jafnvel þó að það hafi verið fyndið og sérstakur ítalskur siður fannst mér þessi gjöf ruglandi þar sem aðeins óþægu börnin fengu kol en þetta var sælgæti sem var gott. Hvort er það eiginlega? Eða eins og þegar litli bróðir minn fékk stóran pakka sem reyndist svo vera kassi fullur af kolamolum. Það voru sannarlega skilaboð sem erfitt var að gleyma! Gleðilega hátíð.“
LilaÏ
Myndir:
Père Noël: Franski jólasveinninn
Befana: góðhjartaða ítalska nornin
Galette des Rois: frönsk jólabaka
Pandoror: ítölsk jólakaka
Bûche de Noël: æti jóladrumburinn
Fyrri pistil, þar sem sagt var frá pólskum jólahefðum má finna hér.