Ljóstýra: Ljósin í myrkrinu
Í landbúnaðarsamfélagi 19. aldar tóku vetrarstörfin við um veturnætur eins og lýst er hér. Þegar gegningum lauk og rökkva tók var ljós kveikt í baðstofunni og kvöldvakan hófst með þeim störfum sem henni fylgdu.
Ekki er víst að nútímafólk sem vant er rafmagnsljósum og raftækjum í hverju horni myndi sætta sig við vinnuaðstæðurnar í gömlu baðstofunum. Þar var lýsislampinn aðalljósgjafinn allt fram til 1870 þegar steinolíulampinn tók að ryðja sér til rúms. Eins og nafnið gefur til kynna var ljósmetið í lömpunum lýsi. Sellýsi þótti best, því næst hákarlalýsið en þorskalýsið þótti lakast. Þá var hrossaflot einnig nýtt sem ljósmeti. Kveikirnir voru snúnir saman og tvinnaðir úr fífu. Lýsið og kveikurinn voru í efri lampanum en neðri lampinn tók á móti lýsinu sem dróst fram með kveiknum og lak niður. Misjafnt var eftir gæðum lýsisins hversu góð birta var af lömpunum og oft fylltust baðstofurnar af sóti og reyk með tilheyrandi ólofti. Yfirleitt var bara einn lampi í baðstofunni sem varpaði daufum bjarma á vinnandi fólkið.
Langt fram á 19. öld voru klukkur ekki í almennri eigu og því þurfti fólk að nota aðrar mælieiningar á lengd vinnutímans. Oft var miðað við að vaka þangað til Sjöstirnið var komin í nónstað. Einnig þekktust svokallaðir vökulampar og var þá vinnutíminn miðaður við þann tíma sem það tók lýsið að brenna úr þeim. Á sumum bæjum var vinnuharkan mikil og fólki gert að vaka og vinna langt frameftir.
Kolur og kerti voru einnig notuð sem ljósgjafar. Kolurnar voru einfaldari og lélegri ljósgjafar en lýsislamparnir og notaðar þegar hafa þurfti ljós á öðrum stöðum en í baðstofunni, t.d. í eldhúsi eða fjósi. Kertin voru steypt úr tólg og helst notuð til hátíðarbrigða eins og á jólum. Víða var til siðs að allt heimilisfólk fengi sitt eigið kerti á jólunum og má ímynda sér hvílík dýrð það hefur verið þegar ljósin ljómuðu um alla baðstofuna.
Heimild: Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili
---
Byggðahátíðin Dagar myrkurs stendur nú yfir á Austurlandi. Af því tilefni býður Minjasafn Austurlands uppá daglega fróðleiksmola sem bera yfirskriftina Ljóstýrur. Aðrar ljóstýrur má lesa hér og hér.