Skip to main content

Afmælismoli - Tilurð safnsins

10. ágúst 2023

Í ár fögnum við 80 ára afmæli Minjasafns Austurlands og er því ekki úr vegi að rifja upp sögu þess í grófum dráttum. Tilurð safnsins má rekja til fundar sem átti sér stað í Atlavík þann 19. júlí 1942 þar sem kosin var sjö manna undirbúningsnefnd en í henni voru Gunnar Gunnarsson rithöfundur, Páll Hermannsson alþingismaður, Þórarinn Þórarinsson skólastjóri á Eiðum, Björn Hallsson hreppsstjóri á Rangá, Sveinn Jónsson bóndi á Egilsstöðum, Benedikt Guttormsson bankastjóri á Eskifirði og Sigrún P. Blöndal forstöðukona á Hallormsstað, og var hún jafnframt formaður nefndarinnar. Stofnendur vildu koma í veg fyrir að komandi kynslóðir töpuðu tengslum við gamla lifnaðarhætti sem voru á undanhaldi, en um miðbik síðustu aldar virðist hafa verið landlæg vakning um mikilvægi þess að varðveita íslenskan menningararf sbr. stofnun Byggða- og sjóminjasafns Ísafjarðar árið 1941 og Byggðasafnið á Skógum árið 1949 sem dæmi. Lög um byggðasöfn á Íslandi voru sett árið 1947. 

Í nóvember 1942 sendi undirbúningsnefndin frá sér dreifibréf en í bréfinu koma glöggt fram áhyggjur nefndarmanna af rofi milli hins nýja tíma og þess gamla. „Fornir hættir, siðir og vinnubrögð eru að falla í gleymsku og þeim fer óðum fækkandi, er tvenna muna tímana. Aldrei hefur reynt meir á hin sögulegu tengsl og eldrei riðið meir á því, að hver maður geri það, sem í hans valdi er, til að tryggja þau sem bezt.“ Jafnframt voru Austfirðingar hvattir til að leggja safninu til gamla muni sem ekki voru lengur í notkun. Í bréfinu var útlistað hvers konar hlutir ættu heima á safni til að auðvelda söfnunina. 

Minjasafnið var svo formlega stofnað árið 1943 og lagði undirbúningsnefndin til stofnaðila sem voru Búnaðarsamband Austurlands, Samband austfirskra kvenna og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og átti hver sína fulltrúa í stjórn safnsins. Sú fyrsta var skipuð Gunnari Gunnarssyni sem var formaður, Sigrúnu P. Blöndal gjaldkera og Þóroddi Guðmundssyni ritara. Safnið var sjálfseignarstofnun í eigu fyrrnefndra aðildarfélaga en fjármögnun var ótrygg enda hvorki gerðir samningar við ríki né sveitarfélag og var treyst á frjáls framlög aðildarfélaganna og annarra velunnara. Síðar meir bættust við Menningarsamtök Héraðsbúa og svo sýslunefndir Múlasýslna sem urðu árið 1977 meðeigendur og rekstraraðilar safnsins. Í dag standa sveitarfélögin Múlaþing og Fljótsdalshreppur að byggðasamlagi um rekstur safnsins.

ÁFANGAR Í SÖGU OG REKSTRI SAFNSINS:

  • 1942 Undirbúningsnefnd að stofnun safnsins kosin. 
  • 1943 Safnið stofnað.
  • 1945 Munir safnsins færðir frá Húsmæðraskólanum á Hallormstað að íbúðarhúsi Gunnars Gunnarssonar, skálds, að Skriðuklaustri.
  • 1948 Um 400 munir skráðir í aðfangabók.
  • 1966 Safninu á Skriðuklaustri lokað.
  • 1981 Allir munir safnsins varðveittir í geymslum á Egilsstöðum. 
  • 1982 Fyrsta skóflustungan að nýju Safnahúsi á Egilsstöðum tekin. 
  • 1995 Fyrsti áfangi Safnahússins á Egilsstöðum af þremur tekinn í notkun. Minjasafnið flytur inn ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Nýr stofnsamningur gekk í gildi fyrir safnið.
  • 1996 Fastasýning opnuð. Starfsmaður ráðinn allt árið.
  • 1996-dagsins í dag: Safnið hefur starfsemi allt árið. Starfsemin felst í þremur grunnþáttum safnastarfs: Rannsóknum, varðveislu og miðlun. Á safninu eru bæði grunnsýningar, fjölbreyttar sérsýningar og viðburðir. Starfsfólk safnsins sinnir jafnframt fjölbreyttri safnfræðslu og skráningu, ljósmyndum safngripa. Þá tekur safnið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum. 

Heimildir: 

Saga - 1. tölublað 2017: grein eftir Unni Birnu Karlsdóttur.

https://www.minjasafn.is/um-safnid/saga-safnsins

Búnaðarrit 1. Tbl. (01.01.1947)


Fleiri afmælismolar:

Húsnæði safnsins

Innra starf

Notendur safnsins

Síðustu fréttir

Afmælismoli - Notendur safnsins
18. september 2023
Á Minjasafninu fáum við til okkar ýmsa gesti héðan og þaðan. Á sumrin eru gestirnir að megninu til erlendir og innlendir ferðamenn en á veturna eru skólarnir á svæðinu duglegir að nýta sér safnið o...
Afmælismoli - Innra starf
08. september 2023
Verkefnum menningarminjasafna má skipta í fimm flokka sem allir tengjast innbyrgðis og segja má að treysti hver á annan. Þessi flokkar eru: söfnun, varðveisla, skráning, rannsóknir og miðlun. Verke...
Afmælismoli - húsnæði Minjasafns Austurlands
28. ágúst 2023
Við höldum áfram að tína til skemmtilega mola úr sögu Minjasafns Austurlands í tilefni af því að í haust verða 80 ár liðin frá stofnun þess. Nú beinum við sjónum að húsnæði safnsins í gegnum tíðina...