Skip to main content

Afmælismoli - Tilurð safnsins

10. ágúst 2023

Í ár fögnum við 80 ára afmæli Minjasafns Austurlands og er því ekki úr vegi að rifja upp sögu þess í grófum dráttum. Tilurð safnsins má rekja til fundar sem átti sér stað í Atlavík þann 19. júlí 1942 þar sem kosin var sjö manna undirbúningsnefnd en í henni voru Gunnar Gunnarsson rithöfundur, Páll Hermannsson alþingismaður, Þórarinn Þórarinsson skólastjóri á Eiðum, Björn Hallsson hreppsstjóri á Rangá, Sveinn Jónsson bóndi á Egilsstöðum, Benedikt Guttormsson bankastjóri á Eskifirði og Sigrún P. Blöndal forstöðukona á Hallormsstað, og var hún jafnframt formaður nefndarinnar. Stofnendur vildu koma í veg fyrir að komandi kynslóðir töpuðu tengslum við gamla lifnaðarhætti sem voru á undanhaldi, en um miðbik síðustu aldar virðist hafa verið landlæg vakning um mikilvægi þess að varðveita íslenskan menningararf sbr. stofnun Byggða- og sjóminjasafns Ísafjarðar árið 1941 og Byggðasafnið á Skógum árið 1949 sem dæmi. Lög um byggðasöfn á Íslandi voru sett árið 1947. 

Í nóvember 1942 sendi undirbúningsnefndin frá sér dreifibréf en í bréfinu koma glöggt fram áhyggjur nefndarmanna af rofi milli hins nýja tíma og þess gamla. „Fornir hættir, siðir og vinnubrögð eru að falla í gleymsku og þeim fer óðum fækkandi, er tvenna muna tímana. Aldrei hefur reynt meir á hin sögulegu tengsl og eldrei riðið meir á því, að hver maður geri það, sem í hans valdi er, til að tryggja þau sem bezt.“ Jafnframt voru Austfirðingar hvattir til að leggja safninu til gamla muni sem ekki voru lengur í notkun. Í bréfinu var útlistað hvers konar hlutir ættu heima á safni til að auðvelda söfnunina. 

Minjasafnið var svo formlega stofnað árið 1943 og lagði undirbúningsnefndin til stofnaðila sem voru Búnaðarsamband Austurlands, Samband austfirskra kvenna og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og átti hver sína fulltrúa í stjórn safnsins. Sú fyrsta var skipuð Gunnari Gunnarssyni sem var formaður, Sigrúnu P. Blöndal gjaldkera og Þóroddi Guðmundssyni ritara. Safnið var sjálfseignarstofnun í eigu fyrrnefndra aðildarfélaga en fjármögnun var ótrygg enda hvorki gerðir samningar við ríki né sveitarfélag og var treyst á frjáls framlög aðildarfélaganna og annarra velunnara. Síðar meir bættust við Menningarsamtök Héraðsbúa og svo sýslunefndir Múlasýslna sem urðu árið 1977 meðeigendur og rekstraraðilar safnsins. Í dag standa sveitarfélögin Múlaþing og Fljótsdalshreppur að byggðasamlagi um rekstur safnsins.

ÁFANGAR Í SÖGU OG REKSTRI SAFNSINS:

  • 1942 Undirbúningsnefnd að stofnun safnsins kosin. 
  • 1943 Safnið stofnað.
  • 1945 Munir safnsins færðir frá Húsmæðraskólanum á Hallormstað að íbúðarhúsi Gunnars Gunnarssonar, skálds, að Skriðuklaustri.
  • 1948 Um 400 munir skráðir í aðfangabók.
  • 1966 Safninu á Skriðuklaustri lokað.
  • 1981 Allir munir safnsins varðveittir í geymslum á Egilsstöðum. 
  • 1982 Fyrsta skóflustungan að nýju Safnahúsi á Egilsstöðum tekin. 
  • 1995 Fyrsti áfangi Safnahússins á Egilsstöðum af þremur tekinn í notkun. Minjasafnið flytur inn ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Nýr stofnsamningur gekk í gildi fyrir safnið.
  • 1996 Fastasýning opnuð. Starfsmaður ráðinn allt árið.
  • 1996-dagsins í dag: Safnið hefur starfsemi allt árið. Starfsemin felst í þremur grunnþáttum safnastarfs: Rannsóknum, varðveislu og miðlun. Á safninu eru bæði grunnsýningar, fjölbreyttar sérsýningar og viðburðir. Starfsfólk safnsins sinnir jafnframt fjölbreyttri safnfræðslu og skráningu, ljósmyndum safngripa. Þá tekur safnið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum. 

Heimildir: 

Saga - 1. tölublað 2017: grein eftir Unni Birnu Karlsdóttur.

https://www.minjasafn.is/um-safnid/saga-safnsins

Búnaðarrit 1. Tbl. (01.01.1947)


Fleiri afmælismolar:

Húsnæði safnsins

Innra starf

Notendur safnsins

Síðustu fréttir

Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...
Fjöldi nemenda sem fengu fræðslu frá Minjasafninu með mesta móti
30. desember 2023
Sjaldan hafa fleiri nemendur tekið þátt í safnfræðslu Minjasafns Austurlands en á árinu sem var að líða en um 800 nemendur nýttu fræðsluverkefni safnsins á árinu. Fjöldinn hefur aðeins þrisvar veri...