Skip to main content

Afmælismoli - húsnæði Minjasafns Austurlands

28. ágúst 2023

Við höldum áfram að tína til skemmtilega mola úr sögu Minjasafns Austurlands í tilefni af því að í haust verða 80 ár liðin frá stofnun þess. Nú beinum við sjónum að húsnæði safnsins í gegnum tíðina. 

Við stofnun Minjasafns Austurlands var upphaflega hugmyndin sú að það yrði staðsett í viðbyggingu Húsmæðraskólans á Hallormsstað. Á meðan beðið var eftir að byggt yrði við skólann bauð Gunnar Gunnarsson herbergi til afnota, í húsi hans og eiginkonu hans Franziscu á Skriðuklaustri, til að geyma munina sem þá höfðu þegar safnast. Árið 1945 voru þeir hafðir til sýnis í þessu eina herbergi en árið 1948 gáfu Gunnar og Franzisca húsið til ríkisins með því skilyrði að það yrði nýtt undir einhvers konar menningarstarfsemi. Einnig óskuðu hjónin eftir því að Minjasafnið fengi aukið sýningarpláss en af því varð aldrei. Árið 1966 var safninu á Skriðuklaustri lokað vegna ófullnægjandi aðstöðu og mununum komið fyrir í geymslu hér og þar á svæðinu. Meðal annars voru gripir geymdir uppá lofti í húsnæðinu sem nú hýsir bæjarskrifstofur Múlaþings á Egilsstöðum og í kringum 1980 voru keypt tvö tilbúin timburhús sem leysa áttu brýnasta húsnæðisvandann auk þess sem þáverandi minjavörður Austurlands hafði þar aðstöðu. Húsin stóðu beint á móti Valaskjálf, á svæðinu fyrir ofan Vilhjálmsvöll þar sem nú er æfingasvæði. Það var svo ekki fyrr en árið 1996, þegar núverandi húsnæði Safnahússins var tekið í gagnið, að safnið komst loksins í framtíðarhúsnæði ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Það var þó ekki nema að hluta til enda var aldrei lokið við síðasta hluta byggingarinnar. Enn er beðið eftir að Safnahúsið verði klárað en vonir standa til að það muni gerast bráðlega.

Við stofnun safnsins sendi undirbúningsnefndin frá sér dreifibréf til að upplýsa heimamenn um tilurð þess og til að hefja formlega söfnun muna. Ragnar Ásgeirsson, ráðunautur Búnaðarsambands Íslands, var fenginn til að taka að sér söfnunina og sinnti hann því nokkur sumur þar sem hann ferðaðist um Austurland og heimsótti flesta bæi. Einnig sá hann um skráningu þessara muna og er þessi handskrifaða munaskrá kölluð Ragnarsskráin í daglegu tali. Þó nútímalegri skráningarform hafi leyst skrána af hólmi þarf starfsfólk safnsins reglulega að fletta upp í skrá Ragnars. 

Í dag býr Minjasafn Austurlands til sína eigin starfstefnu sem byggir á safnastefnu Þjóðminjasafnsins og menningarstefnu sveitarfélaganna sem að því standa.


Mynd: Munageymsla Minjasafnsins á "Brúnáslofti", þ.e. háalofti hússins sem nú hýsir bæjarskrifstofu Múlaþings á Egilsstöðum en hýsti þá m.a. fyrirtækið Brúnás. Eigandi myndar: Héraðsskjalasafn Austfirðinga


Fleiri afmælismolar: 

Tilurð safnsins

Innra starf

Notendur safnsins

Síðustu fréttir

Afmælismoli - Notendur safnsins
18. september 2023
Á Minjasafninu fáum við til okkar ýmsa gesti héðan og þaðan. Á sumrin eru gestirnir að megninu til erlendir og innlendir ferðamenn en á veturna eru skólarnir á svæðinu duglegir að nýta sér safnið o...
Afmælismoli - Innra starf
08. september 2023
Verkefnum menningarminjasafna má skipta í fimm flokka sem allir tengjast innbyrgðis og segja má að treysti hver á annan. Þessi flokkar eru: söfnun, varðveisla, skráning, rannsóknir og miðlun. Verke...
Afmælismoli - húsnæði Minjasafns Austurlands
28. ágúst 2023
Við höldum áfram að tína til skemmtilega mola úr sögu Minjasafns Austurlands í tilefni af því að í haust verða 80 ár liðin frá stofnun þess. Nú beinum við sjónum að húsnæði safnsins í gegnum tíðina...