Skip to main content

Afmælismoli - Notendur safnsins

18. september 2023

Á Minjasafninu fáum við til okkar ýmsa gesti héðan og þaðan. Á sumrin eru gestirnir að megninu til erlendir og innlendir ferðamenn en á veturna eru skólarnir á svæðinu duglegir að nýta sér safnið og reynum við að koma til móts við þá með því að bjóða upp á ýmis verkefni sem eru sérsniðin að öllum aldurshópum. Einnig er reglulega boðið upp á sérstaka viðburði fyrir fjölskyldufólk, t.d. í kringum jól og páska og aðra hátíðardaga.

Við fengum nokkra gesti til að segja okkur frá því hvers vegna þau sækja safnið og hver reynsla þeirra er af því. 

Sigríður Herdís Pálsdóttir leikskólastjóri og Guðrún Ásta Friðbertsdóttir deildarstjóri leikskólanum Tjarnarskógi: Nemendur í leikskólanum Tjarnarskógi eru duglegir að nýta sér safnið og mætir t.d. þriðji elsti árgangur fjórum sinnum yfir veturinn þar sem tekin eru fyrir mismunandi þemu í tengslum við lifnaðarhætti Íslendinga fyrr á öldum. Einnig hefur starfsmaður á vegum safnsins mætt í leikskólann á bóndadaginn og kynnt hefðir og þjóðsögur í tengslum við þorrann fyrir elstu nemendunum. Þær eru ánægðar með markvisst samstarf og áhuga starfsfólks safnsins á að fræða börnin. "Börnin eru alltaf jafn áhugasöm og spennt fyrir heimsóknum á safnið, sama á hvaða aldursstigi þau eru. Þau læra að heimsækja og umgangast safn og þó að hluti af því sé t.d. að snerta ekki hlutina þá er þörfum þeirra mætt með því að leyfa þeim að snerta og meðhöndla ull og bein og máta sauðskinnskó." Guðrún Ásta nefnir auk þess að henni hafi fundist gaman að sjá mismunandi aukasýningar í Krubbunni eins og t.d. Grýluhellinn sem var settur upp um jólin og sýningin Sauðkind og safnkostur í kringum þorrann. Hún upplifir að það sé alltaf eitthvað nýtt og spennandi sem hún megi ekki missa af.

Jónína Brá Árnadóttir, búsett á Egilsstöðum:  „Ég elska að fara á Minjasafnið og viðburði tengda safninu með dætrum mínum tveimur. Við höfum haft ómælt gaman af því að fræðast um gamalt handverk, samfélag og líf gamla tímans - sérstaklega í gegnum viðburði. Dóttir mín, sem er 5 ára, tekur oftar en ekki það sem hún hefur fræðst um og lært á safninu með sér heim og útfærir eitthvað sjálf heima - það finnst mér vera afskaplega dýrmætt innlegg til hennar. Allskonar spurningar kvikna oft upp í hverri heimsókn og stækkar jafnframt heimsmyndina og skilning á sögunni.“

Paul Blood og Dawn Williamson, ferðamenn frá Bresku Kólumbíu: „Mér finnst alltaf gaman að heimsækja söfn á ferðalögum. Það er frábær leið til að skilja sögu og menningu landsins. Sýningarnar endurspegla hvernig sögu starfsmenn safnsins vilja segja um sitt svæði. Minjasafn Austurlands er frábært dæmi um hvernig saga svæðisins er sögð. Framsetningin á baðstofunni frá Brekku er falleg og ég lærði heilmikið um menningarlegt mikilvægi hreindýra fyrir svæðið. Ég vona að fleiri gestir á Austurlandi muni njóta þess að heimsækja Minjasafn Austurlands.“ - Paul

„Á nýlegu ferðalagi okkar til Grænlands, Íslands og Færeyja heimsóttum við mörg söfn til að fá innsýn í sögu og menningu þessara staða. Þar sem við erum frá Kanada og höfum búið í Manitoba í tíu ár þekkjum við afkomendur íslenskra innflytjenda. Nágrannakona okkur talaði jafnvel ennþá íslensku heima hjá sér þrátt fyrir að fjölskylda hennar hafi búið í Kanada í margar kynslóðir. Þess vegna var það sérstaklega áhugavert að læra um uppruna þeirra, hversdagslífið í dreifbýli og litlum bæjum á Íslandi. Sýningarnar á Minjasafninu bæði svöruðu spurningum okkar og vöktu upp nýjar og vorum við ánægð að geta fengið áreiðanleg svör frá starfsfólki safnsins. Þar sem ég prjóna mikið er ég áhugasöm um handverk og mér fannst sérstaklega gaman að sjá prjónavél sem framleiddi sokka á svipaðan máta og pulsur. Ég var líka heilluð af rúmunum sem hægt var að lengja eða stytta að vild og voru margnota íverustaður, auk útskornu rúmfjalana sem voru til sýnis. Heimsókn okkar á safnið var áhugaverð, upplýsandi og ekki síst gagnvirk.“ - Dawn.

 

Fleiri afmælismolar: 

Tilurð safnsins

Húsnæði safnsins

Innra starf

Síðustu fréttir

"Röð og regla á söfnum"
29. apríl 2024
Þann 16. apríl síðastliðinn stóð NKF-IS, félag norrænna forvarða á Íslandi fyrir námskeiðinu Röð og regla á söfnum -  umhirða og eftirlit safnhúsa og sýningarhúsnæðis (housekeeping). Minjasafn...
Ársskýrsla 2023 komin út
26. mars 2024
Ársskýrsla Minjasafns Austurlands fyrir árið 2023 er nú aðgengileg hér á vefnum. Þar má lesa um fjölbreytta og blómlega starfsemi safnsins á árinu 2023.  Meðal efnis:  80 ár frá stofnun...
Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...