Skip to main content

Afmælismoli - Innra starf

08. september 2023

Verkefnum menningarminjasafna má skipta í fimm flokka sem allir tengjast innbyrgðis og segja má að treysti hver á annan. Þessi flokkar eru: söfnun, varðveisla, skráning, rannsóknir og miðlun. Verkefni safna eru því bæði fjölbreytt og viðamikil en þau eru þó fæst sýnileg almenningi. Á meðan sýningar, viðburðir og önnur miðlun eru það sem blasir við gestum og gangandi er unnið að því bak við tjöldin að skrá og rannsaka safngripi og búa þeim sem best varðveisluskilyrði.  Á Minjasafni Austurlands starfa að jafnaði 3-4 starfsmenn sem í sameiningu sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem safnastarf býður uppá.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir er safnstjóri safnsins. Hún er fjölmiðla- og þjóðfræðingur og hefur starfað sem safnstjóri frá árinu 2015:  „Starf safnstjórans er afar fjölbreytt. Starfið felst fyrst og fremst í því að hafa yfirumsjón með starfsemi safnsins en það felur í sér mjög fjölbreytt verkefni. Safnstjórinn sér um starfsmannamál og allt sem viðkemur rekstri safnsins. Hann hefur yfirumsjón með markaðs- og kynningarmálum; gerir starfsáætlanir og áætlanir um sýninga- og viðburðahald, vinnur styrkumsóknir og skýrslur, vinnur að varðveislumálum og skráningum og er fulltrúi safnsins í ýmsum starfshópum og samstarfsverkefnum svo fátt eitt sé nefnt. Þá sinnir safnstjóri einnig gestamóttöku ef þörf er á og á í góðum samskiptum við fólk sem vill afhenda gripi á safnið. Allt er þetta unnið í góðu samstarfi við annað starfsfólk safnsins eftir því sem við á.“

Beata Brodowska er sérfræðingur á sviði varðveislu og hefur starfað á safninu frá árinu 2009. Beata er menntaður fornleifafræðingur og vinnur fyrst og fremst með alla muni sem berast safninu. „Þegar safnið fær mun í sína vörslu þarf að byrja á því að meta hann og athuga hvort hann samræmist safnastefnu safnsins. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að taka við öllum hlutum er einfaldlega sú að þá myndu geymslurnar fyllast fljótt. Ef ákveðið er að taka við hlutnum þarf að rannsaka hann og skrá. Þá er metið hvort að þurfi að hreinsa hlutinn og/eða forverja. Allar upplýsingar sem fylgja honum eru skráðar og svo þarf að  merkja, ljósmynda, pakka honum inn í viðeigandi umbúðir og finna honum geymslustað. Hluturinn er skráður í sarpur.is sem er sameiginlegur gagnagrunnur allra safna á Íslandi.“ Beata sér einnig um skipulag geymslunnar og heldur utan um útlán hluta til annarra safna.

Eyrún Hrefna Helgadóttir er sérfræðingur á sviði fræðslu og miðlunar en Hanna Christel Sigurkarlsdóttir leysir hana tímabundið af. Eyrún er þjóðfræðingur og menningarmiðlari og hefur starfað á safninu frá árinu 2019. Eyrún hefur yfirumsjón með allri miðlun safnsins, bæði safnfræðslu, sýningum og viðburðahaldi. „Allar sýningar safnsins eru í raun hluti af fræðslustarfi og er þeim miðlað bæði til fullorðinna og barna. Stór hluti safngesta eru nemendur í leik- og grunnskólum af svæðinu og mikil áhersla lögð á að höfða til allra aldurshópa með sérstökum leiðsögnum og verkefnum. Safnið er jafnframt samstarfsaðili BRAS, barna- og menningarhátíðar á Austurlandi, og leggur til a.m.k. eitt verkefni sem er í boði fyrir grunnskóla Múlaþings. Minjasafnið býður auk þess reglulega upp á fjölskylduvæna viðburði allan ársins hring.“

 

Fleiri afmælismolar:

Tilurð safnsins

Húsnæði safnsins

Notendur safnsins 

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...