Skip to main content

Fyrri sýningar

Þorpið á Ásnum

Árið 2017 voru 70 ár frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þéttýli tók að myndast við Gálgaás. Af því tilefni settu Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga upp sýningu tileinkaða tímamótunum í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Sláturhúsinu, sumarið 2017. Eftir að sýningartímanum í Sláturhúsinu lauk var hluti sýningarinnar settur upp í Safnahúsinu. 

Á sýningunni vorutil sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Hér var ekki um að ræða tæmandi sögu Egilsstaða heldur var áhersla lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir stóðu til að sýningin myndi vekja upp minningar hjá eldri kynslóðum og gæfi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.

 

 

Leikið á Ásnum

Í hópi frumbyggja Egilsstaða voru að sjálfsögðu mörg börn. Leiksvæði þeirra var annað og öðruvísi en Egilsstaðabörn þekkja í dag enda hefur bærinn breyst og þróast í tímans rás. Í sýningarskápum í sýningarsal Minjasafnsins má skoða leikföng frá þeim tíma þegar fyrstu innfæddu Egilsstaðabúarnir voru að alast upp. Þar má m.a. sjá brúður, bíla, LEGO kubba og spil. Sumt kann að koma nútímabörnum spánskt fyrir sjónir en önnur leikföng hafa elst betur og gætu allt eins hafa verið keypt í gær.

Ging gang gúllí á Ásnum

Á þessu ári eru 55 ár frá því að skátafélagið Ásbúar var formlega stofnað á Egilsstöðum. Í tilefni af því hefur verið sett upp skátamót í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð Safnahússins. Þar eru til sýnis margvíslegir munir úr fórum Minjasafnsins sem allir tengjast starfi félagsins á fyrri tíð. 

Minningar um torfhús

Sýningin Minningar um torfhús var í sett upp á neðstu hæð Safnahússins í janúar 2017. Á sýningunni voru 25 ljósmyndir sem franski fornleifafræðingurinn Sandra Coullenot tók af gömlum byggingum vítt og breitt um Ísland. Ljósmyndirnar voru hluti af doktorsverkefni Söndru en í rannsóknum sínum skoðaði hún m.a. hvort og hvernig torfhús hafa haft áhrif á íslenska sagnahefð og notaði til þess bæði aðferðir þjóðfræði og fornleifafræði.

Markmið sýningarinnar var að vekja upp minningar og hugrenningar sem sýningargestir tengdu við torfhús. Sérstakur minningarkassi var á sýningunni og voru gestir hvattir til að skrifa hugrenningar sínar á miða sem hægt er að stinga í kassann. 

Sýningin var sett upp í samstarfi við söfnin í Safnahúsinu og Gunnarsstofnun en Sandra dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri í byrjun árs 2017.

Festum þráðinn

Sýningin Festum þráðinn - samræður um útsaum spor fyrir spor var opnuð í Minjasafninu 2. nóvember 2016. Þar voru til sýnis útsaumuð verk 10 kvenna, fimm frá Austurlandi og fimm frá Vesterålen í Noregi. Allar eru konurnar á aldrinum 67- 95 ára og eiga það sameiginlegt að hafa stundað útsaum frá unga aldri. Sýningin er hluti af rannsókn norsku listakonunnar Ingrid Larssen á útsaumshefðum beggja svæða. Afrakstur rannsókna sinna gaf hún út í bók í samstarfi við Minjasafnið. Bókin er samnefnd sýningunni og er til sýnis og sölu á Minjasafninu. Í tengslum við sýninguna stóð Minjasafnið fyrir útsaumskaffi þar sem Guðrún Sigurðardóttir, handmenntakennari og þátttakandi í verkefninu, kynnti mismunandi útsaumsaðferðir og leyfði gestum að spreyta sig. Nánari upplýsingar um sýninguna og rannsókn Ingridar er að finna hér.

Sýningin stóð fram að jólum og var eftir það sett upp í Sortland Museum í Vesterålen í Noregi. 

Fjöllistamaður í fjallasal

Sumarsýning Minjasafnsins árið 2016 var samstarfsverkefni safnsins, Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Sýningin bar heitið Fjöllistamaður í Fjallasal og var tileinkuð alþýðulistamanninum Jón A. Stefánssyni frá Möðrudal sem var mikill hagleiks- og listamaður, málaði málverk, skar út í tré, spilaði á orgel, samdi lög og söng. Frægastur var hann þó fyrir að hafa byggt Möðrudalskirkju og málað altaristöfluna sem í henni er en kirkjuna byggði hann til minningar um konu sína, Þórunni Oddsen. Sýningin var sett upp í Sláturhúsinu og þar voru til sýnis málverk og listmundir eftir Jón auk þess sem hægt var að skoða skjöl tengd honum og hlusta á viðtöl við hann og upptökur á söng hans.  Í tengslum við sýninguna gafst einstakt tækifæri til að safna saman upplýsingum um verk Jóns sem til eru víða. Frétt um opnun sýningarinnar má finna hér.20 ár í Safnahúsi

Í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá því að Minjasafnið flutti í Safnahúsið á Egilsstöðum var sumarsýningu safnsins árið 2016  ætlað að sýna þá fjölbreytni sem einkennir safnkost safnsins. Safnverðir litu yfir geymslurnar og tíndu til nokkra muni sem tilheyra þeim tíu söfnunarflokkum sem skilgreindir eru í safnastefnu Minjasafnsins. Gripirnir voru á öllum aldri og ástand þeirra mismunandi en allir geyma þeir mikilvægar sögur um líf og störf fólks á Austurlandi fyrr og nú. Meðal þess sem sjá mátti á sýningunni var hökull sem sagan segir að hafi komið frá álfum, vídalínspostilla frá 18. öld, skólabjalla frá Alþýðuskólanum á Eiðum, óþekktir forngripir, brauðmót og spáspil. 


Söfnunarflokkar Minjasafns Austurlands eru: Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, félagsleg uppbygging, dægradvöl, hús- og híbýlahættir, fornmunir, ljósmyndir, bækur og skjöl.

"Brostu þá margir heyranlega"

31. október 2015 var opnuð sýning um Sigfús Sigfússon, þjóðsagnasafnara frá Eyvindará í tilefni af því að 160 ár voru liðin frá fæðingu hans. Sýningin, sem bar yfirskriftina "Brostu þá margir heyranlega" var samstarfsverkefni Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Minjasafns Austurlands og Bókasafns Héraðsbúa. Á sýningunni voru veggspjöld með margvíslum fróðeik um Sigfús og verk hans, bækur, skjöl og bréf úr fórum Sigfúsar og munir frá þeim tíma þegar Sigfús var uppi auk þess sem hægt var að hlusta á þjóðsögur úr safni hans.

Nála

Haustsýning Minjasafnsins árið 2015 var farandsýningin Nála sem byggð er á samnefndri bók bók eftir Evu Þengilsdóttur. Bókin Nála - riddarasaga kom út hjá Sölku í lok árs 2014 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er ævintýri um valið milli góðs og ills, stríðs og friðar. Innblástur sótti höfundur í íslenskt handverk og sagnahefð. Sýningin var sniðin að yngstu bekkjum grunnskóla. Þar var ýtt undir hugmyndaflug og sköpunargleði og gestir hvattir til að snerta, skapa og skemmta sér. Auk þess útbjó Eva skemmtilegan ratleik sem teygiði sig um allt Safnahúsið. 140 skólabörn af öllu Austurlandi heimsóttu sýninguna ásamt kennurum sínum.