Skip to main content

Fyrri sýningar

Slifsi

Sýningin Slifsi stendur nú yfir í Minjasafni Austurlands. Þar eru til sýnis nokkur af þeim fjölmörgu peysufataslifsum sem safnið varðveitir. Þau eru frá ýmsum tímum og eins ólík og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að hafa prýtt peysuföt austfirskra kvenna við hátíðleg tækifæri. Sýningarhönnun var í höndum Perlu Sigurðardóttur hjá PES ehf. 

Samhliða sýningunni var opnuð vefsýning á Sarpi þar sem áhugasamir geta skoðað myndir af slifsunum og nálgast nánari upplýsingar um þau. 

Jólagluggi verslunar Pálínu Waage

Jólasýning Minjasafnsins árið 2018 bar yfirskriftina Jólagluggi Verslunar Pálínu Waage. 

Verslun E.J. Waage á Seyðisfirði var upphaflega stofnuð af Pálínu Guðmundsdóttur Waage árið 1907 í nafni eiginmanns hennar, Eyjólfs Jónssonar Waage. Síðar tók Jón sonur þeirra við rekstrinum en árið 1962 var komið að Pálínu Waage yngri, dótturdóttur Pálínu og Eyjólfs að taka við keflinu. Undir stjórn Pálínu yngri var verslunin nefnd Pöllubúð í daglegu tali. Búðin er ógleymanleg öllum sem í hana komu en þar var sannarlega hægt að fá allt milli himins og jarðar. Í viðtali við Morgunblaðið árið 1999 svaraði Pálína spurningu um hvað hún seldi í búðinni með orðunum "hvað sel ég ekki?"

Minjasafn Austurlands geymir mikið safn gripa sem tengist verslunarrekstri Pálínu Waage og bættist í það safn árið 2018 þegar safnið fékk afhenta fleiri gripi, m.a. nokkra sem tengust jólum. Í tilefni af því var jólasýning safnsins helguð versluninni og settur var upp búðargluggi með jólavörum úr búðinni í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð.

Austfirskt fullveldi: Sjálfbært fullveldi?

Sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi var hluti af stærra verkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Markmiðið var að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Sýningin sem opnuð var í Minjasafni Austurlands var ein af fjórum sambærilegum sýningum sem opnaðar voru á sama tíma á Austurlandi 17. júní 2018. Hinar voru opnaðar í Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, í Randulfssjóhúsi á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótdal. Sýningarnar fjölluðu um börn árin 1918 og 2018 og var líf þeirra, nánasta umhverfi og samfélag speglað við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í tengslum við verkefnið var opnuð heimasíða þar sem finna á margvíslegan fróðleik. Verkefnið náði hápunkti á veglegri lokahátíð sem fór fram í Menntaskólanum á Egilsstöðum á fullveldisdaginn, 1. desember. Þar voru sýningarnar fjórar sameinaðar á einum stað, nemendukynntu verkefni sem tengjast fullveldinu og fleira. Auk þeirra stofnana sem þegar hafa verið nefndar komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Safnastofnun Fjarðabyggðar og Landgræðsla ríkisins einnig að því en það var leitt af Austurbrú. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Alcoa

Nr. 2 Umhverfing

Sýningin Nr. 2 Umhverfing var samsýning 37 listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningarstaðirnir voru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna var jafnframt gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra.

Sýningin var hluti af röð sýninga sem settar verða upp víða um land á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017 og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum.

Að sýningunum stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær voru allar á meðal þeirra listamanna sem áttu verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal.

Verbúðarlíf - menning og minning

Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.

Á sýningunni Verbúðarlíf sem opnuð var í Minjasafni Austurlands á Dögum myrkurs 2017, fengu gestir að skyggnast inn í herbergi á verbúð. Þar var verbúðalífi þessa tíma gerð skil, annars vegar með myndum og texta og hins vegar með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti.

Sýningin er farandsýningin og var unnin af Spor - menningarmiðlun

Þorpið á Ásnum

Árið 2017 voru 70 ár frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þéttýli tók að myndast við Gálgaás. Af því tilefni settu Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga upp sýningu tileinkaða tímamótunum í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Sláturhúsinu, sumarið 2017. Eftir að sýningartímanum í Sláturhúsinu lauk var hluti sýningarinnar settur upp í Safnahúsinu. 

Á sýningunni vorutil sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Hér var ekki um að ræða tæmandi sögu Egilsstaða heldur var áhersla lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir stóðu til að sýningin myndi vekja upp minningar hjá eldri kynslóðum og gæfi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.

 

 

Leikið á Ásnum

Í hópi frumbyggja Egilsstaða voru að sjálfsögðu mörg börn. Leiksvæði þeirra var annað og öðruvísi en Egilsstaðabörn þekkja í dag enda hefur bærinn breyst og þróast í tímans rás. Í sýningarskápum í sýningarsal Minjasafnsins má skoða leikföng frá þeim tíma þegar fyrstu innfæddu Egilsstaðabúarnir voru að alast upp. Þar má m.a. sjá brúður, bíla, LEGO kubba og spil. Sumt kann að koma nútímabörnum spánskt fyrir sjónir en önnur leikföng hafa elst betur og gætu allt eins hafa verið keypt í gær.

Ging gang gúllí á Ásnum

Á þessu ári eru 55 ár frá því að skátafélagið Ásbúar var formlega stofnað á Egilsstöðum. Í tilefni af því hefur verið sett upp skátamót í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð Safnahússins. Þar eru til sýnis margvíslegir munir úr fórum Minjasafnsins sem allir tengjast starfi félagsins á fyrri tíð. 

Minningar um torfhús

Sýningin Minningar um torfhús var í sett upp á neðstu hæð Safnahússins í janúar 2017. Á sýningunni voru 25 ljósmyndir sem franski fornleifafræðingurinn Sandra Coullenot tók af gömlum byggingum vítt og breitt um Ísland. Ljósmyndirnar voru hluti af doktorsverkefni Söndru en í rannsóknum sínum skoðaði hún m.a. hvort og hvernig torfhús hafa haft áhrif á íslenska sagnahefð og notaði til þess bæði aðferðir þjóðfræði og fornleifafræði.

Markmið sýningarinnar var að vekja upp minningar og hugrenningar sem sýningargestir tengdu við torfhús. Sérstakur minningarkassi var á sýningunni og voru gestir hvattir til að skrifa hugrenningar sínar á miða sem hægt er að stinga í kassann. 

Sýningin var sett upp í samstarfi við söfnin í Safnahúsinu og Gunnarsstofnun en Sandra dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri í byrjun árs 2017.