Skip to main content

Litið um öxl

08. janúar 2020

Nú árið er liðið í aldanna skaut og þá er viðeigandi að líta um öxl. Árið var bæði viðburðaríkt og skemmtilegt hér á Minjasafninu eins og eftirfarandi fréttaannáll ber með sér. 

Í upphafi árs var mikið um að vera í safnfræðslu Minjasafnsins eins og jafnan á þorra. Fjöldi skólabarna heimsótti safnið og starfskonur safnsins fór einnig í heimsóknir í skóla. Safnfræðslan var áfram blómleg út árið en samtals komu 760 nemendur úr leik-, grunn- og framhaldsskólum í skipulagðar heimsóknir á safnið. Vel heppnað samstarf safnsins og leikskólans Tjarnarskógar hélt áfram en það felur í sér að allir nemendur skólans sem verða 4 ára á skólaárinu koma í fjórar skipulagðar heimsóknir á safnið yfir veturinn. Þá var áfram unnið að þróun námsefnis Minjasafnsins og fræðslunnar almennt. 

Í febrúar tók Minjasafnið þátt í vefsýningunni Æskan á millistríðsárunum sem var samsýning 16 safna og fór fram á Sarpi. Sýningin var liður í að vekja athygli á Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni, þar sem upplýsingar um safnkost íslenskra safna eru aðgengilegar.

Í sama mánuði kynnti Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur rannsóknir sínar á gripum og líkamsleifum "Fjallkonunnar" svokölluðu sem fannst við Afréttarskarð á Austurlandi í björgunaruppgreftri árið 2004.

Í mars stóðu Minjasafnið og Bókasafn Héraðsbúa fyrir öskupokasmiðju þar sem áhugasömum gafst kostur á að læra listina að sauma öskupoka undir handleiðslu Kristjönu Björnsdóttir. 

Á alþjóðlega safnadeginum í maí frumsýndi Félag íslenskra safna og safnmanna (FíSOS) nýtt kynningarmyndband um safngestinn knáa sem er stöðugt að uppgvötva nýja hluti á söfnum landsins. Í þessu myndbandi var hann m.a. staddur á Austurlandi og í Minjasafni Austurlands. 

Á árinu var Minjasafnið í skemmtilegu og góðu samstarfi við Hallormsstaðaskóla og Heimilisiðnaðarfélag Íslands um verkefni sem hefur yfirskriftina Handverk og hefðir. Í tengslum við verkefnið var haldið málþing í Safnahúsinu í júní og um haustið var boðið upp á kynningar og námskeið, m.a. í tóvinnu. Framhald verður á þessu verkefni á árinu 2020. 

Sumarsýning Minjasafnsins bar heitið Slifsi en þar var til sýnis fjölbreytt safn peysufataslifsa úr safnkosti Minjasafnsins. Samhliða var opnuð vefsýning á Sarpi. 

Framkvæmdir héldu áfram í Kjarvalshvammi en frá árinu 2017 hefur verið unnið að viðhaldi á sumarhúsi Kjarvals í hvamminum með það að markmiði að tryggja áframhaldandi varðveislu þessu. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á árinu 2020.

Í lok ágúst heimsótti þýski rithöfundurinn, blaðamaðurinn og sagnakonan Anne Siegel Safnahúsið og las upp úr bók sinni Frauen Fische Fjorde sem fjallar um þýsku konurnar sem komu til Íslands á eftirstríðsárunum. Viðburðurinn var samstarfsverkefni Minjasafnsins og Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Í september tók Minjasafnið virkan þátt í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Boðið var upp á opnar smiðjur fyrir almenning og grunnskólum á svæðinu var einnig boðið að koma með nemendur sína í smiðjur þar sem nemendur bjuggu til hreyfimyndir upp úr þjóðsögum að eigin vali. Þá kom Minjasafnið einnig að smiðju á vegum Bókasafnsis þar sem grunnskólanemendum var boðið að búa til listaverk út bókum. Allar heppnuðust smiðjurnar afar vel og alls lögðu 220 börn leið sína í Safnahúsið í tengslum við BRAS. 

Í september sóttu starfskonur safnsins Farskóla safnmanna sem að þessu sinni var haldin á Patreksfirði. Um er að ræða árlega fagráðstefnu safnafólks á Íslandi og einn helsta vettvang símenntunar fyrir safnafólk.

Í október hóf nýr liður, gripur mánaðarins, göngu sína á heimasíðu safnsins. Eins og nafnið bendir til snýst þessi dagskrárliður um að vekja mánaðarlega athygli á einum forvitnilegum grip úr safnkosti safnsins.

1. nóvember, á fyrsta degi byggðahátíðarinnar Daga myrkurs, var sýningin Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld opnuð í Safnahúsinu. Þar voru til sýnis 30 teikningar nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar. Við opnun sýningarinnar flutti Daníel G. Daníelsson, sagnfræðingur erindi, en sýningin spratt upp úr rannsóknum hans. Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga stóðu saman að sýningunni og fyrirlestrinum. 

Á aðventunni var að vanda mikið um að vera í Safnahúsinu. Minjasafnið og Bókasafnið stóðu saman að viðburði sem bar yfirskriftina Líða fer að jólum en þar var boðið upp á fjölbreytta og jólalega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna, s.s. jólaföndur, jólaratleik og fleira. Sett var upp sérstök jólastofa á miðhæð Safnahússins og síðast en ekki síst kenndi Guðrún Sigurðardóttir gestum réttu handtökin við gerð tólgarkerta og var gaman að sjá hvað yngsta kynslóðin var áhugasöm um þetta gamla verklag. Frá byrjun desember töldu starfskonur Minjasafnsins síðan niður til jóla með sérstöku jóladagatali á heimasíðu safnsins. Það fólst í því að vekja daglega athygli á einum grip úr safnkosti safnsins sem tengdist jólum á einhvern hátt. 

Í innra starfi safnsins voru einnig unnin mörg og mikilvæg handtök þó þau verkefni séu kannski ekki eins áberandi og viðburðir og sýningar. Áfram var haldið við endurskipulagningu varðveislurýma, ljósmyndun gripa og mótttöku og skráningu nýrra gripa. Meðal annars var lokið við að skrá og forverja stórt safn textíla sem kom úr búi Sigurðar Blöndal og Guðrúnar Sigurðardóttur og var afhent safninu árið 2018. Sem fyrr voru gripir safnsins skráðir í menningarsögulega gagnasafnið Sarp sem skiptist í innri vef, sem er vinnutæki safnafólks, og ytri vef þar sem upplýsingarnar eru gerðar aðgengilegar almenningi. Á árinu var farið í sérstakt átak í að yfirfara skráningar og setja þær á netið. Nú eru upplýsingar og ljósmyndir af um 4500 munum úr safnkosti Minjasafnsins aðgengilegar almenningi á Sarpi en skráðir gripir safnsins eru um 11.800. 

Síðast en ekki síst urðu breytingar á starfsmannahaldi safnsins en Edda Björnsdóttir sem starfað hefur sem safnvörður á safninu síðan árið 2007 lét af störfum síðastliðið vor. Í hennar stað var ráðin Eyrún Hrefna Helgadóttir, þjóðfræðingur og menningarmiðlari. Um leið og við bjóðum Eyrúnu Hrefnu innilega velkomna til starfa færum við Eddu bestu þakkir fyrir hennar góða starf í þágu safnsins í gegnum árin. 

Takk fyrir árið 2019, hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju ári. 

 

Mynd: Jóhanna G. Hafliðadóttir