Skip to main content

Horft um öxl: árið 2017

03. janúar 2018

Árið 2017 hefur runnið sitt skeið á enda. Árið var viðburðaríkt og annasamt en umfram allt skemmtilegt. Hér verður stiklað á stóru og farið yfir það helsta.

Árið hófst með því að sýningin Minningar um torfhús var opnuð á neðstu hæð Safnahússins. Stór hluti safnkosts safnsins var fluttur í nýtt varðveislurými í apríl. Í sama mánuði var úthlutað úr Safnasjóði og fékk Minjasafnið tvo styrki, annars vegar rekstrarstyrk og hins vegar verkefnastyrk til að láta forverja textíla úr eigu Jóhannesar Kjarvals listmálara en safnið varðveitir nú stórt safn persónulegra muna listamannsins. Á sumardaginn fyrsta heimsótti Stefán Jónasson, fræðimaður, rithöfundur og ritstjóri Lögbergs Heimskringlu Minjasafnið og flutti fyrirlestur sem bar yfirskriftina Icelanders and the Canadian Mosaic. Í maí tók Minjasafnið þátt í Alþjóðlega safnadeginum en þema dagsins að var "Sögur sem ekki má segja". Í sama mánuði fór fram útskrift úr Menntaskólanum á Egilsstöðum og veitti Minjasafnið og Bókasafn Héraðsbúa nemum sem útskrifuðust af listnámsbraut hvatningarverðlaun Hauks Stefánssonar en söfnin eru umsjónaraðilar Haukssjóðs. 1. júní tók sumaropnunartími Minjasafnsins gildi og var safnið þá opið alla daga vikunnar. 17. júní var venju samkvæmt opið hús í Minjasafninu og frítt inn á sýningar. Sama dag var sumarsýning Minjasafnsins opnuð í Sláturhúsinu. Sýningin bar yfirskriftina Þorpið á Ásnum og var samstarfsverkefni Minjasafnsins, Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Sýningin var sett upp í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þorp tók að myndast við Gálgaás. Safnahúsið tók þátt í verkefninu Ljóð á vegg og Minjasafnið kom einnig að verkefninu Lausir endar þar sem leyndardómar Álfkonudúksins frá Bustarfelli voru rannsakaðir. Sumarið einnig var nýtt til framkvæmda því ráðist var í langþráðar og nauðsynlegar endurbætur á ytra byrði munageymslu Minjasafnsins. Vetraropnunartími safnsins tók gildi 1. september og í framhaldi af því fór safnfræðsla safnsins á fullt. Samstarf safnsins við leikskólann Tjarnarskóg hélt áfram auk þess sem grunnskólarnir voru duglegir að nýta safnið. Mest var um að vera í desember þegar yfir 200 nemendur sóttu safnið heim en samtals hafa um 700 nemendur heimsótt safnið á árinu með 95 kennurum. Í september sóttu starfskonur safnsins Farskóla safnmanna sem að þessu sinni var haldinn á Siglufirði. Á Dögum myrkurs í byrjun nóvember var farandsýningin Verbúðalíf opnuð og síðar í sama mánuði var fyrsta hluta nýs námsefnis Minjasafnsins hleypt af stokkunum. Í lok nóvember fór hin árlega bókavaka Safnahússins fram og í desember tók Minjasafnið á móti fólki í tilefni af Jólasamkomu Þjónustusamfélagsins. 

Meðfram öllu þessu unnu safnverðir safnsins ötullega að ýmsum verkefnum tengdum innra starfi safnsins, s.s. ljósmyndun og skráningu muna, rannsóknum, forvörslu og endurskipulagningu varðveislurýma. 

Við þökkum fyrir árið sem nú er liðið og hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju ári.