Skip to main content

2020 liðið í aldanna skaut

06. janúar 2021

Árið 2020 er liðið í aldanna skaut. Eins og annars staðar í samfélaginu var þetta óvenjulegt ár hjá Minjasafni Austurlands.

Áætlanir breyttust, viðburðum var aflýst eða þeim frestað og erlendum ferðamönnum fækkaði gríðarlega. Samfélags- og vefmiðlar voru nýttir sem aldrei fyrr, íslenskum gestum fjölgaði gríðarlega og tími gafst til að sinna ýmsum verkefnum sem tengjast innra starfi safnsins. 

Árið hófst með hefðbundnum hætti þegar rúmlega 200 börn á leik- og grunnskóla aldri heimsóttu safnið til að fá margvíslega fræðslu en þó einkum í tengslum við þorrann. 

Í febrúar var tilkynnt um styrkúthlutanir úr Uppbyggingarsjóði Austurlands þar sem Minjasafn Austurlands fékk úthlutað 1,3 milljónum til þriggja verkefna sem ráðast átti í á árinu. Tveimur þeirra var síðar frestað til ársins 2021 vegna Covid. Í sama mánuði stóð safnið einnig fyrir vel heppnaðri öskupokasmiðju í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbb Austurlands. 

Í byrjun mars var opnuð ný örsýning á þriðju hæð Safnahússins þar sem fjallað var um sögu og handverk Málfríðar Jónasdóttur fá Kolmúla í Reyðarfirði.

Þann 24. mars var skellt í lás í Safnahúsinu þegar aðgerðir gegn útbreiðslu Covid-19 voru hertar og samkomubann sett á. Þó safnið sjálft væri lokað var starfsemin áfram í fullum gangi og starfskonur sinntu margvíslegum verkefnum sem tengdust innra starfi safnsins. Þá færðist miðlun safnsins á heimasíðu og samfélagsmiðla en safnasamfélagið var duglegt að nýta netið til að miðlunar og til að halda viðburði. Í mars var safnstjóri t.d. í pallborði á fjarmálstofu á vegum Háskóla Íslands þar sem fjallað var um Covid-19 og söfn. 

Í apríl var opnuð ný vefsýning sem bar yfirskriftina Kjarval - gripirnir úr bókinni, en þar voru sýndir gripir sem birtust í bók Margrétar Tryggvadóttur, Kjarval - málarinn sem fór sínar eigin leiðir. 

Í apríl hófst einnig vinna við verkefnið "Austurland á tímum kórónaveirunnar" en þar er um að ræða samstarfsverkefni safnsins, Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshérðas og Töru Tjörvadóttur ljósmyndara sem miðaði að því að safna samtímaheimildum um ástandið í samfélaginu á formi ljósmynda. 

Í maí bárust þau gleðilegu tíðindi að samstarfsverkefnið Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? væri tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2020 en Minjasafnið var eitt þeirra safna sem komu að því. Verðlaunin voru veitt við hátíðarlega athöfn 18. maí og komu í hlut Þjóðminjasafns Íslands. 

Í júní hlaut safnið styrk í gegnum byggðaþróunarverkefnið Betri Borgarfjörður til að ská muni sem tilheyra torfhúsinu Lindarbakka á Borgarfirði eystra. Verkefnið er í fullum gangi og hægt er að fylgjast með því á samfélagsmiðum. 

Þó minna færi fyrir almennum hátíðarhöldum á 17. júní en venjulega voru sumarsýningar Minjasafnsins opnaðar þann dag venju samkvæmt. Að þessu sinni voru þær tvær, annars vegar sýningin Flugdrekabók með verkum eftir Guy Stewart og hins vegar var sýningin Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? sett upp á nýjan leik í Sláturhúsinu í tilefni af tilnefningunni til íslensku safnaverðlaunanna. Á þjóðhátíðardaginn var nýtt krakkahorn safnsins einning tekið í noktun en þar tekur hreinkýrin Hreindís á móti yngri kynslóðinni. 

Í júní, júlí og ágúst var safnið opið daga venju samkvæmt. Erlendum ferðamönnum fækkaði mikið en þeim íslensku fjölgaði að sama skapi. Gestafjöldi yfir sumarið hélst því svipaður á milli ára en ánægjulegt var að sjá hve mikið börnum fjölgaði en það sýnir okkur að barnafjölskyldur líta á Minjasafnið sem ákjósanlegan áfangastað á ferðum sínum um svæðið. 

Hinum árlega Farskóla safnmanna var breytt í Fjarskóla að þessu sinni en farskólinn er fagráðstefna þar sem safnafólk hittist, tengist, fræðist og ber saman bækur sínar. Þema Fjarskólans var heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og saman stóð hann af átta fróðlegum málstofum sem fóru fram vikulega á netinu frá september og fram í nóvember. Meðal þess sem boðið var uppá var málstofa um verkefnið Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?

Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi fór fram í september og hugðist Minjasafnið taka virkan þátt í henni eins og undanfarin ár. Það er skemmst frá því að segja að um það leyti sem heimsóknir skólabarna á safnið áttu að hefjast voru hertari takmarkanir settar á skólahald og því fóru næstum allar okkar áætlanir út um þúfur en ekki allar þó eins og lesa má um hér

Ný örsýning var opnuð á þriðju hæð Safnahússins í október en þar mátti meðal annars líta "óskadraum eiginkonunnar". 

Dagar myrkurs fóru fram um mánaðamótin október til nóvember en vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að standa fyrir stórum viðburðum. Eins og oft áður á þessu ári snéru starfskonur safnsins sér því að vefmiðlunum og buðu upp daglegar "Ljóstýrur" á meðan hátíðinni stóð. Þar var um að ræða litla fróðleiksmola sem birtust á heimasíðu safnsins. 

Í nóvember var Safnahúsið lýst upp með roðagylltum bjarma til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi og í desember hófst niðurtalning til jóla með jóladagatali safnsins. Í nóvember lauk einnig framkvæmdum ársins við sumarhús Kjarvals í Kjarvalshvammi en safnið hefur undanfarin ár staðið fyrir viðhaldi á húsinu. 

Í desember bauð Minjasafnið upp á jóladagatal á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum. Daglega opnaðist einn gluggi sem hafði að geyma upplýsingar um grip úr safnkostinum sem tengdist jólahaldi á einhvern hátt.

Við þökkum fyrir heimsóknir, afhendingar, samveru og samskipi á hinu óvenjulega ári, 2020, og hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju ári.