Gleðilegt ár!
Árið 2016 var afar viðburðaríkt hjá Minjasafni Austurlands.
Ný heimasíða var tekin í notkun í apríl og á sumardaginn fyrsta opnuðu söfnin í Safnahúsinu dyr sínar og buðu til afmælisfagnaðar. Við sama tækifæri var sumarsýning safnsins opnuð.
Í maí átti safnið meðal annars "stefnumót við skógarsamfélag" þegar þátttakendur í samnefndri alþjóðlegri vinnustofu heimsóttu safnið og í sama mánuði tóku söfnin í Safnahúsinu virkan þátt í Hreyfivikunni.
Sumaropnun Minjasafnsins tók gildi 1. júní en þá var safnið opið alla daga. Fjöldi ferðamanna heimsótti safnið og skoðaði sýningar og voru erlendir ferðamenn þar í meirihluta.
Á 17. júní var venju samkvæmt opið hús og frítt inn á Minjasafnið og nýttu fjölmargir tækifærið og kíktu í heimsókn. Sama dag var sýningin Fjöllistamaður í fjallasal opnuð í Sláturhúsinu.
Í júlí bættist síðasta viðbótin við sýninguna Hreindýrin á Austurlandi þegar uppstoppaði hreindýrstarfurinn var settur á sinn stað og í sama mánuði stóð Minjasafnið fyrir fornleikum í tengslum við Sumarhátíð UÍA.
Vetraropnunartíminn tók gildi 1. september. Þá fækkaði ferðamönnunum til muna en skólahópunum fjölgaði að sama skapi á nýjan leik. Í október dróg síðan til tíðinda í húsnæðismálum safnsins þegar fréttir bárust af undirritun yfirlýsingar þar sem stjórnvöld lýstu yfir vilja til þess að ný burst yrði byggð við Safnahúsið á næstu árum.
Þegar Dagar myrkurs gengu í garð í byrjun nóvember var sýningin Festum þráðinn opnuð í Minjasafninu að viðstöddu fjölmenni. Í tengslum við sýninguna var síðan blásið til útsaumskaffis sem var einnig vel sótt.
Í desember stóðu söfnin í safnahúsinu fyrir árlegri bókavöku og þá tók Minjasafnið einnig þátt í jólaskemmtun þjónustusamfélagsins á Héraði.
Meðfram öllu þessu unnu starfsmenn safnsins ötullega að ýmsum verkefnum tengdum innra starfi safnsins, s.s. ljósmyndun og skráningu muna, rannsóknum og forvörslu.
Við þökkum fyrir árið sem nú er liðið og hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju ári.
(smellið á undirstrikuðu orðin til að fá meiri upplýsingar um viðkomandi viðburði)