Nú árið er liðið - horft um öxl

Starfsemi Minjasafns Austurlands á árinu 2021 var fjölbreytt og viðamikil en litaðist þó af áhrifum heimsfaraldursins eins og flest annað í þjóðfélaginu. Aðlaga þurfti viðburði að samkomutakmörkunum og þó gestir væru fleiri en árið áður var fjöldinn þó minni en fyrir faraldur. 

Árið hófst með örsýningunni Vetur en þar voru til sýnis gripir tengdir vetrinum og vetraríþróttum. Þá hélt dagskrárliðurinn Gripur mánaðarins áfram á vef safnsins. 

Í febrúar tók safnið þátt í geðheilbrigðisátakinu G-vítamín á þorra með því að bjóða gestum frían aðgang sem hluta af geðheilsueflingu.

Í mars var ljósmyndasýningin Eyðibýli á heimaslóðum opnuð í Safnahúsinu en þar voru til sýnis ljósmyndir Önnu Birnu Jakobsdóttur af eyðibýlum á Austurlandi.

Í apríl var tilkynnt að safnið hlyti öndvegisstyrk úr Safnasjóði og þá var örsýningin Sumar einnig opnuð.

Í maí tók safnið þátt í alþjóðlega safnadeginum með pistlaskrifum og yfirtöku á instagam-reikningi dagsins. Í maí fór einnig fram ráðstefnan Vegamót sem var samstarfsverkefni safnsins og Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Ráðstefnan heppnaðist afar vel og mikil ánægja með að hægt væri að halda hana í "raunheimum" eftir langt tímabil þar sem slíkir viðburðir voru aðeins haldnir á netinu.

Í júní var lokið við fyrsta áfanga skráningar muna á Lindarbakka í Borgarfirði. Í sama mánuði var sýningin Skessur sem éta karla opnuð í Safnahúsinu.

Sumarið leið með veðurblíðu og tilheyrandi gestamóttöku en safnið var opið alla daga í júní, júlí og ágúst eins og undanfarin ár.

Áfram var unnið að viðhaldi húsanna í Kjarvalshvammi en safnið hefur á undanförnum árum staðið fyrir umfangsmiklum framkvæmdum á sumarhúsi Kjarvals með það að markmiði að tryggja varðveislu þess. 

Þegar hausta tók fór safnfræðslan á fullt. Í september og október tók Minjasafnið sem fyrr virkan þátt í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Safnið bauð upp á opnar fjölskyldusmiðjur fyrir almenning, bæði á Borgarfirði og á Egilsstöðum. Þá bauð safnið grunnskólunum í Múlaþingi upp á tvenns konar smiðjur. Nemendum á yngsta stigi var boðið upp á fræðslu um Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnara frá Eyvindará og hreyfimyndagerð byggða á þjóðsögum. Miðstigi var boðið að fræðast um Valþjófsstaðahurðina og skapa myndasögur innblásnar af myndmáli hennar undir leiðsögn Ránar Flygenring og Elínar Elísabetar Einarsdóttur.

Í október sóttu starfskonur Minjasafnsins Farskóla safnmanna, árlega fagráðstefnu íslensks safnafólks sem að þessu sinni var haldin í Stykkishólmi. Á næsta ári verður ráðstefnan haldin á Austurlandi undir stjórn safnafólks í fjórðungnum.

Þegar aðventan gekk í garð í nóvember var Safnahúsið klætt í jólabúninginn. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu var ákveðið að bjóða ekki til jólaviðburðar eins og stundum hefur verið gert. Þess í stað var boðið upp á frían aðgang að safninu og margvíslega jólatengda afþreyingu allan desember. Þá var sérstök jólaopnun á miðvikudögum í desember en þá var safnið opið til kl. 18:00. Sett var upp jólastofa í sýningarsal safnins og boðið upp á jólasveinaratleik og spurningaleik svo eitthvað sé nefnt. Þá var talið niður til jóla á vef safnsins og samfélagsmiðlum með sérstöku jóladagatali en þar var daglega fjallað um einn grip úr safnkosti safnsins sem tengdist jólunum á einhvern hátt. Gripirnir birtust jafnframt í sýningarskáp á þriðju hæð hússins. 

Meðfram þessu sinntu starfskonur safnsins margvíslegum verkefnum sem snéru að innra starfi safnsins og safnastarfsemi á Austurlandi. Má þar nefna móttöku og skráningu muna, aðstoð við hreinsunar- og uppbyggingarstarf Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði, margvísleg ráðgjafastörf og setu í ýmsum hópum og nefndum. 

Um leið og við óskum ykkur gleðilegs árs þökkum við samfylgdina á árinu sem er að líða og hlökkum til að takast á við verkefni ársins 2022.