Skip to main content

Viðburðaríkt 2022

10. janúar 2023

Gleðilegt ár! Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er viðeigandi að líta um öxl og fara yfir það sem stóð upp úr í starfsemi safnsins á árinu 2022. 

Segja má að árið hafi farið rólega af stað. Covid-19 litaði ennþá samfélagið í upphafi árs en eftir að öllum samkomu takmörkunum var aflétt 25. febrúar má segja að starfsemi safnsins hafi komist í nokkuð eðlilegt horf. Viðburðahald og safnfræðsla fór þó rólega af stað enda var veiran ekki horfin og tíma tók að koma öllum hjólum aftur í gang.  

Í mars fóru starfskonur safnsins í vel heppnaða vettvangsferð suður á land ásamt starfsfólk Tækniminjasafns Austurlands og Safnastofnunar Fjarðabyggðar. Í ferðinni heimsótti hópurinn meðal annars Þjóðminjasafn Íslands, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Hönnunarsafn Íslands, Byggðasafnið í Görðum á Akranesi, Byggðasafn Árnesinga, sýningar Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni og sýningar Landsvirkjunar í Hellisheiðarvirkjun. Alls staðar fékk hópurinn góðar móttökur og gagnlegar kynningar á starfsemi safnanna.  

Í apríl var blásið til páskagleði í Safnahúsinu þar sem meðal annars var boðið upp á sérstaka páskaeggjaleit í sýningarsal Minjasafnsins en hún snérist um að finna páskaegg og botna málshætti. 

Í maí voru víkingar, vopn þeirra og bardagaaðferðir til umfjöllunar í Safnahúsinu þegar þeir Dr. William R. Short og Reynir A. Óskarsson, héldu þar fyrirlestur sinn: Ógnvaldar - bardagaaðferðir víkinga. Þá tók safnstjóri þátt í málþinginu Við tölum ekki um geymslur heldur varðveislu húsnæði sem FÍSOS og Íslandsdeild ICOM stóðu fyrir og tók þar þátt í að segja frá hugmyndum um sameiginlegt varðveisluhúsnæði á Austurlandi sem hafa skotið upp kollinum með reglulegu millibili. Alþjóðlegi safnadagurinn var einnig haldinn hátíðlegur í maí, nánar tiltekið þann sautjánda. Yfirskrift hans að þessu sinni var "Mikill er máttur safna" og af því tilefni var fjallað um mátt safna til fræðslu á vef Minjasafnsins og farið yfir það öfluga fræðslustarf sem þar fer fram. 

Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, var sumarsýning Minjasafnsins opnuð að viðstöddu fjölmenni. Sýningin bar yfirskriftin Hreindýradraugur #3 og þar sýndi franski listamaðurinn François Lelong skúlptúra og myndverk innblásin af hreindýrum og náttúru Austurlands. Sýningin hafði verið lengi í undirbúningi en heimsfaraldurinn hafði orðið til þess að tvisvar þurfti að fresta henni. Þá voru margvíslegar smærri sýningar settar upp á árinu, t.d. sýning með uppáhaldsgripum starfskvenna safnsins. 

Í júní bauðst starfsfólki safnsins að sækja námskeið í myndatöku og vinnslu á þrívíðum myndum af safngripum til að nýta í miðlun. Námskeiðið var afar gagnlegt og er stefnan að nýta þessa miðlunarleið meira þegar fram líða stundir. 

Sumarið gekk síðan í garð og móttaka innlendra og erlendra ferðamann tók mestan tíma starfsfólks. Gestum fjölgaði umtalsvert frá fyrri árum og urðu þeir á endanum umtalsvert fleiri en verið hafði fyrir heimsfaraldur. Skýrðist það fyrst og fremst af fjölgun hópa úr skemmtiferðaskipum sem heimsóttu safnið. 

Í september tók Minjasafnið þátt í hönnunarsmiðjunni Gersemar Fljótsdals en markmið hennar var að draga fram sérstöðu svæðisins í gegnum hönnun og þróun handverks. Í sama mánuði fór Farskóli FÍSOS fram á Hallormsstað en þar er um að ræða árlega fagráðstefnu íslensks safnafólks. Að þessu sinni höfðu fulltrúar Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafns Austurlands og Safnastofnunar Fjarðabyggðar veg og vanda af skipulagningunni með góðum stuðningi frá FÍSOS. Um 120 manns sóttu ráðstefnuna og tóku þátt í fjölbreytti dagskrá sem teygði sig víða um Austurland. 

Í október fór safnfræðsla safnsins af stað af krafti. Þá stóð safnið fyrir nýju fræðsluverkefni fyrir grunnskóla í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Um var að ræða farandsmiðju þar sem nemendum á miðstigi bauðst að fá fræðslu um álfkonudúkinn frá Bustarfelli og vinna skapandi verkefni innblásið af dúknum undir handleiðslu Önnu Andreu Winther listakonu. Verkefnið tókst afar vel og að því loknu var afraksturinn til sýnis í sýningarsal Minjasafnsins. 

Í nóvember tók safnið þátt í Dögum myrkurs með opnu húsi í samstarfi við Bókasafn héraðsbúa. Þar gátu gestir fundið sér ýmislegt til dundurs, farið í ratleiki, fræðst um hjátrú tengda veðri, föndrað og margt fleira. 

Desember var líflegur hjá Minjasafninu og í Safnahúsinu eins og vanalega. Minjasafnið og Bókasafnið efndu til sameiginlegrar jólasamveru þar sem gestum gafst meðal annars kostur á að leita uppi jólasveina og líta inn í Grýluhelli sem birtist í sýningarsal safnsins á aðventunni. Þá birtist röð greina á vef safnsins í aðdraganda jóla þar sem fjallað var um jólahefðir annarra landa og spjallað við íbúa á Austurlandi sem eiga rætur að rekja til Póllands, Spánar, Rússlands, DanmerkurFrakklands og Ítalíu

Skólahópar voru duglegir að heimsækja safnið í desember en samtals komu um 220 nemendur í skipulagðar heimsóknir á safnið í mánuðnum. Yfir allt árið fengu um 750 nemendur af öllum skólastigum einhvers konar fræðslu frá safninu, annað hvort með heimsókn á safnið eða með þátttöku í fræðsluverkefnum sem safnið bauð uppá innan skólanna. 

Í innra starfi safnsins var einnig í mörg horn að líta. Áfram var unnið að móttöku gripa, forvörslu þeirra og skráningu. Fjallað var mánaðarlega um einn grip úr safnkosti safnsins á vefnum undir yfirskriftinni Gripur mánaðarins. Þá lauk síðari áfanga skráningar muna sem tilheyra húsinu Lindarbakka á Borgarfirði eystra svo fátt eitt sé nefnt.

Við þökkum fyrir heimsóknir, afhendingar, samvinnu og samskipti á árinu 2022 og lítum björtum augum til ársins 2023. Síðar á árinu verða 80 ár frá því að Minjasafn Austurlands var formlega stofnað og fyrirhugað að minnast þeirra tímamóta með margvíslegum hætti.