Skip to main content

Fjölbreytt afmælisár að baki.

10. janúar 2024

Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta móti. Um haustið voru jafnframt 80 ár liðin frá því að safnið var formlega stofnað. 

Sýningarhald var blómlegt á árinu. Fjórar örsýningar voru settar upp í sýningarskápnum á efstu hæð Safnahússins. Fyrsta sýningin bar yfirskriftina Kassar en þar voru til sýnis nokkrir þeirra gripa sem koma upp þegar leitarorðið "kassi" er slegið inn í skráningarkerfi safnsins. Næsta sýning í skápnum fékk heitið Spengja, stoppa, staga, stykkja en þar voru dregnir fram gripi sem báru vitni um nýtni og hagleik fyrri kynslóða. Sýningin var sett upp í tilefni af alþjóðlega safnadeginum í maí en yfirskrift hans var Söfn, sjálfbærni, vellíðan. Þegar leið að hausti tók sýningin Skóladagar við en þar voru til sýnis gripir sem tengjast skólahaldi. Í desember var svo sett upp sýning með þeim jóladagatölum sem safnið varðveitir. 

Þrjár sýningar voru settar upp í Krubbunni, sýningarrými í aðalsýningarsal safnsins. Árið hófst með sýningunni Sauðkind og safnkostur en þar voru dregnir fram gripir sem tengjast sauðkindinni á einhvern hátt. Sumarsýning safnsins var sýningin Ferðalög fyrr á tímum. Þar var sett upp svipmynd tjaldferðalags í íslenskri náttúru og upplýsingum um ferðalög fólks hér áður fyrr miðlað. Jólasýningin í Krubbunni var svo sýningin Þorláksmessukvöld en þar gátu gestir stígið inn í Þorláksmessustemninguna á íslensku heimili á sjöunda áratugnum. 

Viðburðahald var að sama skapi fjölbeytt á árinu. Minjasafnið tók þátt í fyrirlestrarröðinni Nýjustu fræði og vísindi en að henni stóðu sex fræða- og menningarstofnanir og félög á Austurlandi. Fyrirlestrarröðin hófst árið 2022 en hélt áfram á árinu 2023 og fóru þrír fyrirlestar fram á tímabilinu frá janúar og fram í maí. Í febrúar fór árleg öskupokasmiðja fram í Safnahúsinu en hún var samstarfsverkefni safnsins og Soroptimistaklúbbs Austurlands. Í mars var nýtt afmælismerki safnsins formlega kynnt en eins og áður sagði fagnaði safnið 80 ára afmæli á árinu. Á alþjóðlega safnadeginum stóð safnið fyrir fataviðgerðarsmiðju í tengslum við opnun sýningarinnar Spengja, stoppa, staga, stykkja sem áður hefur verið nefnd. Í tilefni af byggðahátíðinni Dagar myrkurs stóðu söfnin í Safnahúsinu saman að viðburði þar sem gestum og gangandi var boðið upp á afþreyingu sem tengdist árstímanum, myrkrinu og hrekkjavökunni og í byrjun aðventu buðu söfnin til jólasamveru þar sem jólasýningar voru formlega opnaðar, boðið var upp á margvíslega jólalega afþreyingu og sjálfur Skyrgámur leit við. 

Safnfræðslan var vel sótt á árinu en um 800 nemendur nýttu sér fræðsluverkefni safnsins og fara þarf aftur til áranna 2009-2011 til að finna meiri fjölda. Hæst báru þar smiðjur sem safnið stóð fyrir í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, en þetta var í fjórða sinn sem safnið bauð grunnskólum á svæðinu upp á smiðjur þar sem unnið var á skapandi hátt með menningararfinn. Í ár var sjónum beint að óáþreifanlegum menningararfi og var boðið upp á smiðjur þar sem nemendur spreyttu sig á tóvinnu, tálgun og fengu að kynnast langspili undir handleiðslu reyndra leiðbeinenda. Smiðjurnar fóru ýmist fram á safninu eða í skólunum, þær voru vel sóttar og samstarfið við skólana afar gott. 

Í október voru 80 ár liðin frá því að Minjasafn Austurlands var formlega stofnað á fundi á Hallormsstað. Í tilefni af því var blásið til kynningarátaks á samfélagsmiðlum safnsins til að vekja athygli sem flestra á afmælinu, sögu safnsins og fjölbreyttri starfsemi þess í gegnum tíðina. Átakið hófst með greinaflokki á vef safnsins undir yfirskriftinni Afmælismolar. Þar var fjallað um tilurð safnsins, húsnæðismál, innra starf og notendur. 9. október hófst svo 80 daga ferðalag á Instagram og Facebook síðum safnsins þar sem daglega var deilt skemmtilegum molum úr sögu og starfsemi safnsins undir myllumerkinu #minjasafnausturlands80ára. Þessi upphafsdagsetning var fyrir valinu vegna þess að fyrrefndur fundur þar sem safnið var formlega stofnað fór fram dagana 9. og 10. október 1943.

Á afmælisárinu var gestafjöldi með mesta móti og skýrist fjölgunin nær alfarið af fleiri gestum úr skemmtiferðaskipum sem lögðust að bryggju á Seyðisfirði í sumar. Þá voru sem fyrr marvísleg verkefni tengd safnkosti safnsins og innra starfi, s.s. móttöku gripa, ljósmyndun þeirra og skráningu. 

Starfskonur Minjasafns Austurlands óska gestum safnsins, vinum og velunnurum gleðilegs árs og þakka heimsóknir, afhendingar, samstarf og samskipti á árinu sem er að líða. Hlökkum til að taka á móti ykkur á árinu 2024.

 

Síðustu fréttir

Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...
Fjöldi nemenda sem fengu fræðslu frá Minjasafninu með mesta móti
30. desember 2023
Sjaldan hafa fleiri nemendur tekið þátt í safnfræðslu Minjasafns Austurlands en á árinu sem var að líða en um 800 nemendur nýttu fræðsluverkefni safnsins á árinu. Fjöldinn hefur aðeins þrisvar veri...